Framlengja búvörusamninga um 2 ár

Frá undirritun búvörusamninga í dag.
Frá undirritun búvörusamninga í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Steingrímur J.  Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og Oddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu í dag breytingu á búvörusamningum og nýjan búnaðarlagasamning fyrir hönd ríkisins. Samningarnir fela í sér framlengingu búvörusamninga um tvö ár. Framlag ríkisins til búnaðarlagasamnings er nokkuð aukið einkum hvað varðar jarðrækt og eflingu kornræktar.

Samningarnir fela í sér breytingar á núverandi samningum þannig að ekki ganga í gildi ákvæði upphaflegra búvörusamninga frá því fyrir 2009 heldur eru samningar framlengdir miðað við núverandi fjárhæðir samkvæmt fjárlögum. Með þessu er bændum tryggður stöðugleiki þar sem að samningarnir framlengjast um tvö ár.

Breytingar á búvörusamningunum miða að því að eftirstöðvar verðbóta vegna fyrri ára komi ekki að fullu til framkvæmda heldur verði framlög vegna búvörusamninga lækkuð um 1% en hækka síðan um sömu prósentutölu og verðlagsforsendur fjárlaga gera milli áranna 2012 og 2013 (3,9%). Jafnhliða þessu hafa viðræður farið fram við Bændasamtök Íslands um nýjan búnaðarlagasamning, en samkvæmt lögum skal hann gerður til 5 ára.

Í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu segir að ýmsar úrbætur séu gerðar á búnaðarlagasamningnum og framlag vegna hans hækkað. Hækkunin kemur einkum fram í hærri greiðslum vegna jarðræktar í því markmiði að auka hlutdeild innlendrar fóðurframleiðslu með eflingu kornræktar og auknum framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins.

Kostar rúmlega 9 milljarða

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að samningarnir kalli ekki á aukin útgjöld ríkisjóðs miðað við framkomið  fjárlagafrumvarp.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verða útgjöld vegna samnings við mjólkurframleiðendur 6.340 milljónir. Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu verða 2.430 milljónir. Þá felur samningurinn við Bændasamtökin í sér að ríkið greiðir vegna búnaðarlagasamningsins 425 milljónir á næsta ári.

Skipa starfshóp um stefnumótun

Í samningi við mjólkurframleiðendur kemur fram að samningsaðilar séu sammála um að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013.

mbl.is/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert