Beint að barnmörgum og tekjulágum

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gert er ráð fyrir því að barnabætur á næsta ári hækki um rúmlega 30% miðað við yfirstandandi ár samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem þýðir að heildarfjárframlög ríkissjóðs til barnabóta nemi tæplega 10,4 milljörðum króna á næsta ári og hækki um 2,5 milljarða.

Þá samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum 28. september síðastliðinn tillögu Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, um breyttar úthlutunarreglur sem miða að því að færa þá fjármuni sem ætlað er til barnabóta meira til þeirra sem eiga fleiri börn og hafa lægri tekjur. Þetta kom fram á blaðamannafundi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í morgun.

Samkvæmt tillögunni mun viðbót vegna barna yngri en 7 ára hækka úr 61.191 krónum í 100 þúsund krónur og tekjuskerðingarmörk verða hækkuð úr 1,8 milljón krónum á ári fyrir einstæða foreldra í 2,4 milljónir króna. Sams konar mörk fyrir foreldra í sambúð verða hækkuð úr 3,6 milljónum króna í 4,8 milljónir króna. Hækkunin mun taka mið af örorkubótum og er gert ráð fyrir að hún verði til viðmiðunar í húsnæðisbótum. Þá verða upphæðir barnabóta annarra en vegna yngri barna en 7 ára hækkaðar um 10%.

Fram kom í máli Oddnýjar að þessi ráðstöfun væri í góðu samræmi við athugasemdir sem komið hefðu fram í skýrslu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands um áhrif efnahagshrunsins á lífskjör í landinu en þar kom fram að eitt af því sem hefði þurft að gera eftir hrunið hefði verið aðhækka barnabætur til þess að styðja við barnafjölskyldur, ekki síst vegna þeirrar skerðingar sem bæturnar hefðu orðið fyrir á undanförnum árum.

Ennfremur kom fram á fundinum að unnið væri að nýju kerfi barnatrygginga í stað barnabótakerfisins þar sem meðal annars væri gert ráð fyrir sérstökum atvinnuleysisbótum vegna barna á framfæri atvinnulausra og barnalífeyris. Þá væri stefnt að því að nýtt kerfi byggðist á samtímagreiðslum, það er mánaðarlegum, en ekki í tengslum við álagningu tekjuskatts.

Oddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundinum í morgun.
Oddný G. Harðardóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundinum í morgun. mbl.is/Hjörtur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert