Samræðuvefur um stjórnarskrána

Samtök um nýja stjórnarskrá (SANS) hafa opnað samræðuvef fyrir almenning um stjórnarskrármál fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október á slóðinni stjornarskra.yrpri.org, segir í fréttatilkynningu.

Vefurinn er unninn í samstarfi við sjálfseignarstofnunina Íbúa. Um er að ræða svipað viðmót og á vefnum Betri Reykjavík, en hér er eingöngu lögð áhersla á stjórnarskrármál, sérstaklega þau er varða kosningarnar 20. október og muninn á frumvarpi Stjórnlagaráðs og núgildandi stjórnarskrá.

Tilgangur vefsins er að auka umræðu um málefni sem tengjast kosningunum 20. október. Þar gefst almenningi tækifæri til að tjá sig um rök með og á móti hinum ýmsu málefnum tengdum stjórnarskránni. Þá er hægt að greiða röksemdum og málum atkvæði.

 Áhugasömum er bent á vef SANS – sans.is- til að kynna sér málefni kosninganna enn frekar, en þar er að finna ýmsan fróðleik fyrir kosningarnar 20. október. Þar er jafnframt hægt að óska eftir svörum við spurningum og biðja um kynningu á stjórnarskrármálefnum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert