Kjaraskerðing Más stendur

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að Kjararáði var heimilt að skerða laun Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á árinu 2009. Laun Más lækkuðu úr 1,6 milljónum króna í 1,3 milljónir króna eftir ákvörðun Kjararáðs. Már hélt því fram að ákvörðunin ætti að taka gildi að skipunartíma hans loknum.

Við aðalmeðferð málsins lagði lögmaður Seðlabanka Íslands á það áherslu lögin frá 2009 um að laun seðlabankastjóra féllu undir Kjararáð voru sett með stjórnskipulega réttum hætti. Markmiðið hafi verið aðhaldsaðgerðir í rekstri ríkisins.

Jafnframt sagði hann að skerðingin hefði ekki átt að koma Má á óvart né hafi réttindi hans verið skert, heldur laun hans aðeins lækkuð.

Már höfðaði mál á hendur Seðlabankanum vegna þess að úrskurður Kjararáðs tók þegar gildi en ekki að loknum skipunartíma hans, sem er til fimm ára. Már var skipaður í embætti í lok júní 2009 og tók við störfum í ágústmánuði sama ár. Á sama tíma samþykkti Alþingi lög sem felldu ákvörðun um laun seðlabankastjóra undir Kjararáð, og að dagvinnukaup mætti ekki vera hærra en föst laun forsætisráðherra.

Lögmaður Más sagði hann í sjálfu sér ekkert við ákvörðun Kjararáðs að athuga. Málið snúi um gildistöku og hvort verið sé að skerða réttindi hans með ólögmætum hætti.

Þá benti hann á að hvað aðra starfsmenn ræðir sem laun voru skert hjá fengu þeir næstum allir greidd eldri laun á meðan uppsagnarfrestur rann út, enda hafi þeir allir verið með ráðningarsamninga. Úrskurðurinn hafi því ekki tekið gildi hjá öðrum fyrr en að loknum uppsagnarfresti. Hann benti svo á, að ekki mætti skerða laun seðlabankastjóra á skipunartíma og því hefði verið brotið á réttindum Más.

Þá sagði lögmaðurinn, að þó svo íslenska ríkið hafi haft hag af því að lækka laun embættismanna þá hafi þurft að gera það í samræmi við lög. Ekki átti að svipta einn né neinn þeim réttindum sem þeir höfðu.

Í því samhengi vitnaði hann til nefndarálits vegna breytinga á lögum um Kjararáð. Þar var gert ráð fyrir því að réttindi yrðu ekki skert afturvirkt.

Dómurinn hefur enn ekki verið birtur og því er óljóst á hverju héraðsdómur byggir. Þó má telja víst að honum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert