Kljást við fíkn og geðræn einkenni

Ungmenni sem sækja vímuefnameðferð á sjúkrahúsinu Vogi glíma ekki aðeins við fíknsjúkdóm því þau sýna ýmis önnur geðræn einkenni. Stór hópur ungmenna greinist með einkenni hegðunarvanda sem taka verður tillit til í meðferðinni að sögn sálfræðings.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar þar sem geðheilsa unglinga sem koma á sjúkrahúsið Vog var skoðuð. Erla Björg Birgisdóttir sálfræðingur vann að rannsókninni en niðurstöðurnar lágu fyrir í nóvember 2010. Erla Björg mun fjalla um sínar niðurstöður á Haustráðstefnu SÁÁ sem hefst á morgun.

Á unglingadeildinni á Vogi er tekið a móti ungmennum sem þurfa að sækja vímuefnameðferð. Erla Björg segir í samtali við mbl.is að flest ungmennanna í rannsókninni hafi verið á aldrinum 16-19 ára.

Stór hluti með hegðunarröskun

„Við vorum að skoða geðheilsu unglinga sem sækja meðferð á sjúkrahúsið Vog og við vorum að velta fyrir okkur hvort þessi hópur væri að sýna mörg geðræn einkenni, fyrir utan að þau eru með fíknsjúkdóma,“ segir hún og bætir við að þetta hafi verið mikið rannsakað í öðrum löndum.

„Það sem kom í ljós var að stór hluti unglinganna í þessari rannsókn voru með einkenni hegðunarvanda. Undir hegðunarvanda er ADHD, mótþróaþrjóskuröskun og hegðunarröskun,“ segir Erla Björg.

„Á þessum tímapunkti þá eru þau með fíknsjúkdóm en þau eru líka að sýna mörg önnur geðræn einkenni,“ segir hún og bætir við að það þurfi að taka tillit til þess í meðferð.

„Þetta er ekki einfalt. Það eru svo margir samverkandi þættir í þessu. Þegar veitt er meðferð við fíknsjúkdómum þá eru svo margar aðrar breytur sem þarf að taka tillit til. Þetta eru oft krakkar sem eru með ADHD, sem eru mótþróþrjóskröskun eða hegðunarröskun, sem er alvarlegri angi af mótþróaþrjóskröskun. Það þarf að nálgast þau á ákveðinn hátt og taka tillit til þess til að ná árangri með þau með fíknsjúkdóminn.“

Meðal þess sem Erla Björg skoðaði við gerð rannsóknarinnar voru sjúkraskrárgögn, en hluti af þeim var geðgreiningarviðtal (DISC) sem hefur verið lagt fyrir unglinga á Vogi. Í viðtalinu er m.a. verið að meta allar helstu raskanir hjá börnum og unglingum, s.s. kvíða, þunglyndi og ADHD. Viðtalið hefur einnig verið notað af geðlæknum á stofum. Erla Björg var með tvo klíníska hópa sem hún gat síðan borið saman. „Unglinga sem leita sér aðstoðar á stofu hjá geðlækni og svo erum við með unglinga á Vogi. Við erum með mælingu á geðrænum einkennum.“

Afgerandi niðurstöður

Erla Björg bendir jafnframt á að það megi leiða að því líkur að einkenni unglinganna ýkist á meðan þau séu í afeitrun á Vogi. „Það segir okkur líka það að á þeim tímapunkti eru þau samt að kljást að geðræn einkenni, sem segir okkur það áfram að það verði að taka tillit til þess,“ segir hún.

Þátttakendur í rannsókninni voru 40 talsins. Erla Björg tekur fram að þrátt fyrir að úrtakið hafi ekki mjög stórt þá hafi niðurstöðurnar verið afgerandi. „Þær gefa góða vísbendingu. En það væri auðvitað gaman að endurtaka þetta með stærra úrtaki,“ segir Erla Björg. Það sé fullt tilefni til þess.

Aðspurð segir hún að niðurstöður sinnar rannsóknar séu mjög í samræmi við niðurstöður svipaðra rannsókna sem hafa verið gerðar í öðrum löndum, t.d.. á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert