Gosdrykkir fyrir tugþúsundir króna á ári

Árið 1960 var gosdrykkjaframleiðsla að meðaltali 18,7 lítrar á hvern Íslending á hverju ári. En það var þá og þetta er núna.

Árið 2010 voru framleiddir 149 lítrar af gosdrykkjum á hvert mannsbarn á landinu og ef við gefum okkur að fólk byrji að neyta gosdrykkja um 10 ára aldur, þá hækkar talan nokkuð, og verður rúmir 173 lítrar á ári. Hér er verið að tala um það sem er framleitt, en samkvæmt neyslukönnunum  er það ekki svo fjarri lagi að allt þetta magn sé drukkið.

Miklu meira en annars staðar á Norðurlöndunum

Íslendingar neyta gosdrykkja í talsvert meira magni en hinar Norðurlandaþjóðirnar, um þrefalt á við það sem Svíar og Finnar drekka og samkvæmt könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011 er neyslan langmest í aldurshópnum 18-30 ára. Karlar á þessu aldursbili drekka 412 millilítra af gos- og svaladrykkjum að meðaltali á dag og konur drekka 321 millilítra.

Gosdrykkir fyrir tugþúsundir

Algeng neyslueining á gosdrykk er hálfur lítri og verð á hálfs lítra plastflösku eða dós í söluturni er 250 krónur. Með því að beita einföldum reikningsaðferðum má þá segja að meðal Íslendingurinn drekki gos fyrir 86.500 krónur á ári hverju, svo framarlega sem hann drekkur gosið í hálfs lítra skömmtum.

Fyrir þessar 86.500 krónur má til dæmis kaupa flugmiða báðar leiðir til London tvisvar sinnum eða festa kaup á nýjum iPad. Svo er líka hægt að kaupa árskort í líkamsrækt eða fara 96 sinnum í bíó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert