Báðu ekki Kínverja að fjárfesta á Íslandi

Eiður Guðnason fyrrverandi sendiherra.
Eiður Guðnason fyrrverandi sendiherra. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Eiður Guðnason, fyrrverandi sendiherra Íslands í Kína, segir það ekki rétt að sendinefndir íslenskra ráðamanna til Kína hafi farið þangað til að hvetja kínverska kaupsýslumenn til að fjárfesta á Íslandi.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Zhongkun á Íslandi, sagði á fundi í Háskóla Íslands í dag að íslenskir ráðamenn hefðu farið margar ferðir til Kína á síðustu árum til að kynna Ísland sem fjárfestingakost. Forseti Íslands, utanríkisráðherra, fjármálaráðherra og fleiri hefðu heimsótt Kína þar sem þetta hefði verið rætt.

Eiður Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra og sendiherra í Kína, mótmælti þessu á fundinum. „Þetta er einfaldlega rangt. Ég tók á móti forseta Íslands, viðskiptaráðherra og fleiri ráðherrum. Það var mikið rætt um viðskipti Íslendinga og Kínverja, um hvernig væri hægt að greiða fyrir starfsemi íslenskra fyrirtækja í Kína. Það var rætt um jarðhitaverkefni í Kína og fleira. Það var hins vegar ekki, svo ég muni, nokkurn tímann rætt um fjárfestingar Kínverja á Íslandi. Það er misskilningur.“

Menn vanir því að fjárfestar hugsi um skammtímagróða

Þeir sem tóku til máls á fundinum voru flestir gagnrýnir á áform Huang Nubo um uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum.  Spurt var um forsendur fyrir fjárfestingunni, hvers vegna hann vildi kaupa svona mikið land fyrst hann teldi nægjanlegt að leigja 300 hektara og eins voru settar fram efasemdir um fjárhagslegan styrk Huang.

Halldór sagðist ekki hafa neinar efasemdir um að Huang hefði fjárhagslega burði til að ráðast í fjárfestingu á Íslandi upp á 16 milljarða. Huang hefði hagnast á fjárfestingaverkefnum og ferðaþjónustu í Kína. Hann hefði áhuga á að fjárfesta erlendis og hefði gert það í Bandaríkjunum í smáum stíl. Áhugi hans á Íslandi hefði kviknað vegna þess að hann hefði á sínum tíma stundað háskólanám með þremur Íslendingum.

Halldór viðurkenndi að Huang hefði notið þess að hafa starfað fyrir kínverska kommúnistaflokkinn. Þessi tengsl hefðu nýst honum þegar hann fór út í viðskipti í eigin nafni. Það væri hins vegar ekki sérkínverskt fyrirbæri að tengsl hjálpuðu mönnum í viðskiptum.

Halldór sagði að Huang gerði sér alveg grein fyrir að fjárfesting í íslenskri ferðaþjónustu af þessari stærðargráði væri lengi að skilað arði. Hann sagði að það væru kannski ýmsir sem ekki skildu þennan hugsunargang að fjárfestir hugsaði fjárfestingu sína til langs tíma en væri ekki bara að hugsa um skammtímagróða.

Halldór sagði að jörðin Grímsstaðir á Fjöllum væri búin að vera til sölu í langan tíma. Í allri umræðu um þessa fjárfestingu hefði enginn rætt við seljendur og hagsmuni þeirra af því að mega selja þessa eign sína. Á jörðinni hefði ekki verið stundaður landbúnaður í mörg ár. Huang hefði áhuga á að nýta hana undir ferðaþjónustu með því að tengja hana við Vatnajökulsþjóðgarð, líkt og umhverfisráðherra hefði lýst áhuga á að gera. Hann vildi þess vegna tryggja í leigusamningi að ekki yrði farið út í aðra nýtingu sem hugsanlega gæti spillt fyrir rekstri hótels á Grímsstöðum.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Zhongkun á Íslandi, kynnti áform Huang Nubo …
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Zhongkun á Íslandi, kynnti áform Huang Nubo í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert