Sími Sigurðar hleraður í 9 vikur

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, gagnrýnir umfjöllun fjölmiðla í greinargerðinni.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, gagnrýnir umfjöllun fjölmiðla í greinargerðinni. mbl.is/Kristinn

Sími Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, var hleraður í níu vikur árið 2010. Hann var upplýstur um símhleranirnar í lok síðasta árs, 19 mánuðum eftir að þeim lauk.

Þetta kemur fram í greinargerð verjanda Sigurðar sem hann lagði fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í Al Thani-málinu. Í henni gagnrýnir hann rannsókn sérstaks saksóknara harðlega. Greinargerðin er 24 blaðsíður og notar hann 12 blaðsíður undir gagnrýni á rannsóknina. Sigurður fer, líkt og aðrir sem ákærðir eru í málinu, fram á að málinu verði vísað frá.

Segir málið hafa hafist með bréfi seðlabankastjóra

Í greinargerðinni er vísað í stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um bann við því að lýsa einstakling sekan áður en dæmt hafi verið í máli hans. Hann segir að stjórnvöld, lögregla og ákæruvald hafi ekki virt þetta bann.

Sigurður segir að upphaf þessa máls megi rekja til bréfs Davíðs Oddssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra, til ríkislögreglustjóra, en það er dagsett 9. desember 2008. Með erindinu fylgi samantekt sem seðlabankastjóri segist vita frá hverjum sé komin og hann meti hana mjög trúverðuga. Sigurður segir að þessi greinargerð „sé uppfull af staðreyndavillum og hreinum skáldskap“.

Sigurður segir að ráðamenn hafi þrýst á sérstakan saksóknara um að hefja rannsókn og að hann hafi látið undan þrýstingi. Þrýstingur hafi einnig komið frá fjölmiðlum. Rannsakendur hafi því sýnilega verið með mótaða afstöðu til málsins þegar Sigurður mætti til skýrslutöku í júní 2009.

Sigurður gagnrýnir, eins og hinir sem ákærðir eru í málinu, greinargerð rannsakenda í málinu. Hann segir að með henni hafi reglur sakamálalaga verið brotnar.

Gagnrýnir handtökuskipunina

Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson, sem einnig eru ákærðir í málinu, voru í kjölfar yfirheyrslna í maí 2010 handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Í kjölfarið óskaði sérstakur saksóknari eftir að Sigurður hraðaði heimferð frá London til að mæta í skýrslutöku. Hann sagðist skyldi gera það gegn loforði um að verða ekki handtekinn. Saksóknari hafnaði því. Sigurður ítrekaði þá fyrra boð. Í kjölfarið var gefin út handtöku tilskipun á hendur Sigurði og birt var auglýsing hjá Interpol um að hann væri eftirlýstur.

Verjandi Sigurðar gagnrýnir þessa aðgerð saksóknara harðlega og segir að saksóknara hafi verið fullkunnugt um hvar Sigurður átti heima og að hann væri heima hjá sér. Saksóknari hafi ekki farið eftir reglum Interpol. Saksóknari hafi sagt að Sigurður væri á flótta undan ákæru, en á þeim tíma hafi ekki verið búið að gefa út neina ákæru. Verjandinn segir að handtökutilskipunin hafi valdið Sigurði miklum óþægindum og tjóni umfram tilefni.

Í greinargerðinni segir að sími Sigurðar hafi verið hleraður frá 9. mars til 21. apríl og 6. maí til 27. maí 2010. Samkvæmt lögum á lögreglustjóri að tilkynna þeim sem símhlerun beinist að um hlerunina  svo fljótt sem verða má.

Sigurður sendi í september 2010 fyrirspurn til saksóknara um hvort sími hans hefði verið hleraður. Í svarbréfi saksóknara er neitað að gefa upplýsingar um símhleranir. Það er síðan 28. desember 2011 sem Sigurður fær svar frá saksóknara um að sími hans hafi verið hleraður. Þá voru liðnir 19 mánuðir frá því að hlerunum lauk.

Vissi ekkert um Gerland og hvers vegna lánið var ekki lagt fyrir lánanefnd

Í greinargerð Sigurðar er fjallað efnislega um ákærur sérstaks saksóknara en Sigurður er ákærður fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. Sigurður bendir á að í 55. gr. laga um fjármálafyrirtæki komi fram að einstakir stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum skuli ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti. Sigurður hafi því „ekkert umboð til þess að taka ákvörðun í einstökum viðskiptum bankans þar með talið lánveitingum til einstakra viðskiptavina umfram það umboð sem hann hafði sem formaður lánanefndar stjórnar.“

Sigurður segir að hann fylgst með viðskiptum Al Thani, „en ekki velt fyrir sér nánari útfærslu á þeim“. Hann hafi verið fylgjandi sölu hlutabréfanna og því að Kaupþing fjármagnaði kaupin.

Sigurður segist t.d. ekki vitað um félagið Gerland, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, en félagið tók lán fyrir helmingi viðskiptanna. Lánveitingin til Gerlands kom aldrei fyrir lánanefnd Kaupþings, en Sigurður var formaður nefndarinnar. Sigurður segir óljóst hvers vegna lánveitingin hafi ekki verið lögð fyrir lánanefndina, en sennilega hafi „þeir starfsmenn sem leggja áttu lánsbeiðnina fyrir nefndina ... gert mistök.“

Sigurður segist ekki hafa annast töku trygginga fyrir lánunum sem tekin voru vegna hlutabréfakaupanna.

Sigurður Einarsson í héraðsdómi.
Sigurður Einarsson í héraðsdómi. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert