„Ekki sést lengi á þessu svæði“

Jarðskjálftarnir í kvöld. Stjarna þýðir að skjálftinn var yfir þrjú …
Jarðskjálftarnir í kvöld. Stjarna þýðir að skjálftinn var yfir þrjú stig. Mynd/Veðurstofa Íslands

Jarðskjálftahrinan á Norðurlandi virðist engan enda ætla að taka. Um kl. 1.30 reið yfir skjálfti sem rauf fimm stiga múrinn en hann er sá stærsti í þessari hrinu. Áður hafði skjálfti rétt undir fjórum stigum riðið yfir, kl. 0.20. Svo sterkir skjálftar hafa ekki mælst á svæðinu í langan tíma.

Til marks um styrkinn í jarðskjálftanum sem reið yfir kl. 1.30 þá varð útslag á stöðvum Veðurstofu Íslands og því er kerfi þeirra afar hægt og sjálfvirkar skráningar jarðskjálfta á vefsvæði Veðurstofunnar virka því ekki sem skyldi.

„Þetta hefur ekki sést lengi á þessu svæði,“ segir Bergþóra S. Þorbjarnardóttir, sérfræðingur á sviði jarðvár, spurð um styrkleika skjálftanna í nótt. Hún nefnir skjálfta sem var upp á sjö stig árið 1963 á svæðinu, en þó aðeins norðar.

Almannavarnir sendu frá sér tilkynningu á samskiptavefnum Facebook en í henni segir að erfitt sé að segja fyrir hve lengi þessi skjálftahrina muni standa yfir og ekki hægt að útiloka fleiri skjálfta af stærðinni 4 eða yfir þá stærð.

Bergþóra tekur fram að engin hætta sé á ferðum, þ.e. ekki hætta á eldsumbrotum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert