Komi í veg fyrir gjaldþrot Íslands

Steingrímur J. Sigfússon á fundi LÍÚ
Steingrímur J. Sigfússon á fundi LÍÚ mbl.is/Ómar Óskarsson

„Í mínum huga er sjávarútvegurinn á Íslandi ekkert eyland heldur hluti af samfélaginu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra í ræðu sinni á aðalfundi LÍÚ fyrir skemmstu og útlistaði hvernig hallinn á ríkissjóði hefði verið gífurlegur frá hruni.

„Ef við gerðum þetta ekki værum við farin á hausinn ... Ísland sem slíkt,“ sagði Steingrímur um nauðsyn aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar.

Steingrímur sagði íslensk stjórnvöld ekki hafa þann munað sem útvegsmenn hefðu að geta hugsað um rekstur sinn án þess að taka stöðu ríkisins til greina. Vildi hann með því færa rök fyrir álagningu veiðigjalda.

„Það þarf að gera fleira en að reka sjávarútvegsfyrirtækin. Það þarf að reka Ísland ohf. Það hefur gengið bara bærilega... Það er ekki lengur rætt um það að Ísland lendi í greiðslufalli. Í árslok 2008 og ársbyrjun 2008 var ekki rætt um hvort heldur hvenær Ísland færi á hausinn... Hagvöxtur í fyrra var ásættanlegur að mínu mati... Það þýðir ekki að gráta okkur í svefn á hverju einasta kvöldi. Við verðum að geta glaðst yfir því sem vel hefur gengið.“

Jafn stórt og fjármálaráðuneytið

Steingrímur sagði ráðuneyti sitt orðið á stærð við fjármálaráðuneytið í ræðu sinni. Fækkun ráðuneyta væri liður í að styrkja ráðuneytin, m.a. í ljósi þeirrar gagnrýni sem hefði komið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Sagði Steingrímur að enn ætti eftir að ráða í skrifstofur viðskipta, afurða og innri þjónustu og rekstrar en að öðru leyti væri ráðuneytið orðið fullmannað.

Athygli vakti að ekki var klappað fyrir Steingrími þegar hann gekk til pontu en hann sagðist í upphafi máls síns vonast til að hann væri að sækja aðalfund en ekki jarðarför.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert