Sjúklingar áhyggjufullir

Smám saman hefur orðið til uppsafnaður vandi og ekki eðlileg …
Smám saman hefur orðið til uppsafnaður vandi og ekki eðlileg endurnýjun á tækjum og búnaði segir forstjórinn í pistli á vef LSH. mbl.is/Eggert

Vegna þeirrar fjölmiðlaumræðu sem hefur átt sér stað um tækjabúnað á Landspítalanum hafa sumir sjúklingar haft samband og lýst yfir áhyggjum af öryggi og gæðum þeirrar meðferðar sem veitt er. Þetta segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, í pistli sem er að finna á vef LSH.

„Ég hef áður sagt frá því að í að minnsta kosti áratug hafa fjárveitingar á fjárlögum til endurnýjunar tækjabúnaðar verið of lágar og alls ekki í samræmi við stærð og eðli starfsemi háskólaspítala eins og Landspítalans. Þannig hefur smám saman orðið til uppsafnaður vandi og ekki eðlileg endurnýjun á tækjum og búnaði,“ skrifar Björn.

Hann tekur hins vegar fram að spítalinn hafi notið góðs af gjafmildi einstaklinga og félagasamtaka sem stutt hafi „rausnarlega við bakið á okkur og værum við í töluvert verri málum ef slíkt hefði ekki komið til“.

„Vegna þessarar opnu fjölmiðlaumræðu á síðustu vikum hafa sumir sjúklingar haft samband og eðlilega haft áhyggjur af öryggi og gæðum þeirrar meðferðar sem veitt er. Þetta á sérstaklega við um meðferð með þeim tækjabúnaði sem mest hefur verið fjallað um, svo sem línuhraðli sem notaður er til geislameðferðar krabbameina og hjartaþræðingartækjunum,“ skrifar Björn.

Vongóður um að meiri fjármunir verði veittir til spítalans

Hann segist ennfremur vita að starfsfólk spítalans meti það hverju sinni af fagmennsku hvort ekki sé öruggt og hættulaust að nota tækin til meðferðar eða greiningar, eins og þau séu í dag.

„Hins vegar geta alltaf komið upp óvæntar bilanir í svona flóknum tækjabúnaði sem við höfum og það á bæði við um ný tæki en auðvitað miklu frekar um mikið eldri tæki. Við á spítalanum höfum margoft komið því á framfæri við stjórnvöld að þarna sé komið ekki að þolmörkum heldur yfir þolmörk og miðað við þá umræðu sem hefur verið á Alþingi og í fjölmiðlum síðustu daga er ég vongóður um að eitthvert tillit verði tekið til þessa og að veittir verði meiri fjármunir í þennan málaflokk a.m.k. á næsta ári,“ segir forstjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert