Finnar og Svíar taka þátt í loftrýmisgæslu

F-15 orrustuþota. Úr myndasafni.
F-15 orrustuþota. Úr myndasafni. Wikipedia

Finnland og Svíþjóð ætla að taka þátt í norrænu verkefni við loftrýmisgæslu í kringum Ísland sem gert er ráð fyrir að hefjist árið 2014. Forsætisráðherrar landanna tilkynntu um þetta á 64. þingi Norðurlandaráðs sem nú stendur yfir í Helsinki, höfuðborg Finnlands, samkvæmt fréttavefnum Sympatico.ca.

„Finnsk stjórnvöld munu upplýsa íslensku ríkisstjórnina um það að við séum reiðubúin að taka þátt í loftrýmisgæslu við Ísland árið 2014 ásamt Svíum,“ sagði Tyrki Katinen, forsætisráðherra Finna, við blaðamenn í Helsinki. Haft er eftir forsætisráðherra Svíþjóðar, Fredrik Reinfeldt, að hann sé jákvæður gagnvart þátttöku Svía.

Fram kemur í fréttinni að málið hafi verið umdeilt bæði í Svíþjóð og þó einkum Finnlandi vegna hlutleysisstefnu landanna og þeirrar staðreyndar að Ísland er aðili að NATO. Stjórnarandstaðan í Finnlandi hafi beitt sér gegn þátttöku Finnlands í loftrýmisgæslunni og meðal annars sagt að það væri ekki Finna að sjá um loftrýmisgæslu NATO-ríkis.

Ennfremur er greint frá niðurstöðum skoðanakönnunar í Finnlandi sem birtar voru í dag en samkvæmt þeim eru 42% Finna andvíg þátttöku landsins í loftrýmisgæslunni við Ísland en 22% hlynnt henni. Aðrir tóku ekki afstöðu með eða á móti.

Frétt Sympatico.ca

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert