Rektor MS: „Við lærum af þessari reynslu“

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. Ómar Óskarsson

Atriði í myndbandi, sem var gert til að vekja athygli á þemadögum í Menntaskólanum við Sund og virðist sýna pilt neyða stúlku til kynferðislegra athafna, hefur verið klippt út. Þetta var sameiginleg niðurstaða fundar skólastjórnenda og fulltrúa nemendafélagsins.

„Þegar við vorum búin að útskýra fyrir þeim vel og vandlega okkar hlið á málinu þá féllust þau á að taka þennan hluta myndbandsins út,“ segir Hjördís Þorgeirsdóttir rektor Menntaskólans við Sund. 

„Aðaláhyggjuefni okkar er að krakkarnir sjá þetta sem brandara og leikaraskap. En við og margir aðrir teljum þetta ekki sæmandi.“

Myndbandið hefur verið tekið úr birtingu.

Í dag var haldinn fundur skólastjórnenda með stjórn nemendafélagsins þar sem málið var rætt. „Við útskýrðum fyrir þeim hvernig endirinn á þessu myndbandi særði blygðunarkennd margra og sameiginleg niðurstaða hópsins varð að þau myndu klippa út viðkomandi myndbrot. Málinu er lokið hvað þetta myndband varðar, en við lærum af þessari reynslu, við sjáum að við þurfum að veita meira aðhald og meiri fræðslu á þessu sviði,“ segir Hjördís. „Skólinn er með jafnréttisstefnu og þetta er síður en svo í samræmi við hana.“

Er eitthvert eftirlit af hálfu skólans með myndböndum og öðru efni sem kemur frá nemendafélaginu? „Já, tveir félagmálafulltrúar úr hópi kennara starfa með nemendafélaginu. Vissu þeir af gerð þessa myndbands? „Nei, þeir vissu ekki af því.“

„Þurfum að efla fræðslu“

Hún segir að tilviljun hafi ráðið því að starfsfólk skólans sat í dag fyrirlestur um klámvæðingu. „Við sjáum að við þurfum að efla fræðslu fyrir nemendur um bæði klámvæðinguna og jafnrétti kynjanna. Það er sá lærdómur sem við getum dregið af þessu.“

Að sögn Hjördísar er kynjafræði ekki kennd sem sérstök námsgrein í Menntaskólanum við Sund, en lögð er áhersla á hana í  félagsfræði og lífsleikni. „Það hefur kannski verið boðið upp á kynjafræði sem valgrein einhvern tímann, en það er ekki í vetur. En þetta er eitthvað sem við gætum bætt úr.“

Spurð að því hvort sambærilegt mál hafi áður komið upp í skólanum segir Hjördís að fyrir nokkrum árum hafi verið hengd upp veggspjöld með helst til fáklæddum nemendum, en þau hafi verið tekin snarlega niður að beiðni skólastjórnar.

Hjördís Þorgeirsdóttir, rektor Menntaskólans við Sund.
Hjördís Þorgeirsdóttir, rektor Menntaskólans við Sund. Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert