Mikilvægt að brjóta vítahringinn

Háskólanemendur á skólabekk. Mikill munur á menntunarstigi á milli landshluta …
Háskólanemendur á skólabekk. Mikill munur á menntunarstigi á milli landshluta er vítahringur sem mikilvægt er að brjóta segir prófessor við Háskólann á Akureyri. mbl.is/Ernir

Prófessor við HA segir mikinn mun á menntunarstigi á milli landshluta vítahring, sem mikilvægt sé að brjóta. Skýringarnar geti verið margar. Samkvæmt nýjum tölum Byggðastofnunar er menntunarstig á höfuðborgarsvæðinu  talsvert hærra en annars staðar á landinu.

Til dæmis er 38% íbúa á Suðurnesjunum með grunnskólapróf eða minna nám, en sambærileg tala fyrir höfuðborgarsvæðið er 19%. 41% íbúa höfuðborgarsvæðisins eru annaðhvort með grunnháskólamenntun eða háskólamenntun á framhaldsstigi og er það talsvert yfir meðaltali fyrir landið allt sem er 34%. Hlutfall iðnmenntaðra er þó lægst á höfuðborgarsvæðinu, en þar eru 19% með slíka menntun.

Spurning um mismunandi viðhorf til menntunar

„Fólk með háskólapróf sækir þangað sem það fær vinnu við hæfi og því ekki að undra að það sæki á stærri staði,“ segir Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri sem hefur rannsakað áhrif menntunar. „En hin hliðin er sú að háskólamenntað fólk skapar sér tækifæri. Ef við t.d. skoðum breytingarnar sem hafa orðið í sjávarútveginum, hefur verið mikið horft á fækkun starfa í veiðum og vinnslu og það  hefur komið illa niður á mörgum litlum þorpum. Hins vegar hafa skapast mörg ný og vellaunuð störf í sjávarútvegi, en það eru störf sem eru afleidd og krefjast háskólamenntunar. Hluti vandans er að þau hafa verið að skapast á stærri stöðunum.“

Þóroddur segir að þessi mikli munur sem er á menntunarstigi á milli landshluta sé vítahringur sem mikilvægt sé að brjóta. Fjarnám á háskólastigi sé eitt tæki til að breyta þessu ástandi. „Síðan hafa menn velt því fyrir sér hvort menning á tilteknum stöðum sé þannig að menntun sé minna metin en annars staðar. Þær vangaveltur hafa til dæmis komið upp í tengslum við mismunandi einkunnir á samræmdu prófunum.“

Spurður um skýringar á lágu menntunarstigi á Suðurnesjunum segir Þóroddur þær vera margar. „Þar hafa verið miklar breytingar á stuttum tíma; brotthvarf varnarliðsins og miklir fólksflutningar þangað undanfarin ár. Hluti ástæðunnar gæti verið lágt húsnæðisverð. En þetta hefur ekki verið skoðað að fullnustu.“

Meiri kröfur um háskólamenntum á höfuðborgarsvæðinu

„Við vitum að þeir sem gera kröfur um langskólagengið fólk eru stofnanir og fyrirtæki sem eru að miklu leyti staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Starfsgreinar sem þurfa síður á slíku fólki að halda, fyrirtæki í ýmsum frumframleiðslugreinum, eru oftar á landsbyggðinni,“ segir Árni Ragnarsson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar.

Ef ekkert er að gert, þá viðhelst þessi skipting

Landshlutasamtök sveitarfélaga hyggjast gera sóknaráætlanir fyrir landshlutana og þar er menntun meðal þeirra þátta sem kannaðir eru. „Ef ekkert er gert, þá viðhelst þessi skipting,“ segir Árni. „Það hefur verið heilmikil viðleitni hjá sveitarfélögunum að fá fleiri verkefni sem krefjast fólks með meiri menntun. Margar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu eru að sinna verkefnum sem sveitarfélögin úti á landi gætu sinnt ef þau væru öflugri.“

Árni segir áhrif þessa munar á menntun á milli landshluta vera margvísleg. „Þetta hefur til dæmis áhrif á samkeppnishæfni svæðanna, á endurnýjunarhæfni þeirra. Þau eru í samkeppni við svæði annars staðar í heiminum um fólk og verkefni. Við erum öll saman í þessari þróun á heimsvísu. Núna erum við til dæmis að missa menntað fólk til Norðurlandanna og svæðin úti á landi þurfa að geta boðið upp á fjölbreyttari störf.“

Tölur Byggðastofnunar

Frétt mbl.is: Mikill munur á menntun

Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri.
Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri. mbl.is
Menntun eftir sóknaráætlunarsvæðum.
Menntun eftir sóknaráætlunarsvæðum. http://www.byggdastofnun.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert