„Getum ekki verið þær druslur og lufsur“

Mörður Árnason
Mörður Árnason Eggert Jóhannesson

„Við getum ekki verið þær druslur og lufsur að við göngum hér frá hálfköruðu verki í fiskinum eftir að þjóðin hefur sagt sitt,“ sagði Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og einnig að þingmenn eigi eftir brekku í þinginu í sjávarútvegsmálum, en beðið er frumvarps frá sjávarútvegsráðherra.

Mörður sagði að það frumvarp verði að standast þær kröfur sem svörin úr þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd. Staðan sé gjörbreytt eftir að 84% kjósenda hafi greitt atkvæði með þjóðareign á auðlindunum. Hann bætti við að ef svo væri ekki væri betra að bíða og vinna heilt verk eftir næstu kosningar.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði ljóst að menn væru nú farnir að túlka niðurstöður úr ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunni á sinn hátt. Ef það ætti að túlka niðurstöðurnar þannig að það ætti við sjávarútveginn hljóti fleira að falla undir, s.s. heita vatnið og þá Orkaveita Reykjavíkur, rafmagnið og náttúran.

Hann sagði þingmenn Samfylkingarinnar sýna sitt rétta andlit en í málflutningi þeirra komi fram ótrúlegt hatur gegn sjávarútveginum. Það sé áhyggjuefni þegar stutt er til kosninga hvernig Samfylkingin leggi upp sína baráttu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert