Leggjast gegn lækkun launa sjómanna

Mbl.is/Ómar

„Frá okkar bæjardyrum séð eru útgerðir vel aflögufærar, en eins og alþjóð veit þá hafa mörg útgerðarfélög skilað gríðarlegum hagnaði undanfarin 2-3 ár,“ segir meðal annars í ályktun frá stjórn Nemendafélags Stýrimannaskólans í Reykjavík en þar er alfarið lagst áformum Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um að lækka laun sjómanna til þess að greiða sérstakt veiðigjald. 

„Okkur í Nemendafélagi Stýrimannaskólans finnst harkalega að okkur sjómönnum vegið, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að mjög margir sjómenn tóku þátt í mótmælum með útvegsmönnum, á Austurvelli í júní fyrr á þessu ári,“ segir ennfremur í ályktuninni. Er minnt á að samkvæmt lögum reiknist veiðigjaldið af söluverðmæti afla að frádregnum kostnaði og þar með talið launum.

„Við biðjum alla sjómannastéttina um að standa saman gagnvart þessu óréttlæti,“ segir að lokum í ályktuninni sem samþykkt var á stjórnarfundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert