„Þjóðin þarf ekki Villa verðtryggingu“

Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson

Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, fer í pistli á vefsvæði sínu hörðum orðum um Vilhjálm Bjarnason fjárfesti sem tryggði sér 4. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í gærkvöldi. Sigurður segir að best færi á því fyrir almenning að flokkurinn fengi ekki fjóra þingmenn í kjördæminu.

„Komist Villi á þing hefst vonandi ekki túlípanaæði á Íslandi, eins og í Hollandi í upphafi 17. aldar. Æði sem leiddi til þess að einn túlípanalaukur kostaði tíföld árslaun verkamanns. Svo sprakk bólan og verð túlípanalauka hrundi og túlípanalendur í Niðurlöndum urðu verðlitlar, ef ekki með öllu verðlausar.

Túlípanaæðið í Hollandi er talið ein fyrsta hagbóla sem óx á og dafnaði af sjálfri sér,“ segir Sigurður.

Þá segir hann að Vilhjálmur hafi tekið að sér að vernda fjármagnseigendur í gegnum Félag fjárfesta, sem sé í raun óskiljanlegur félagsskapur. „Verðtrygging lána hér á landi frá 1979, sem Villi vill vernda og viðhalda, keyrir verðbólguna áfram og upp með tilheyrandi verðlagshækkunum og eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda, sem Villa er svo annt um.

Að baki verðtryggingu stendur ekkert frekar en hækkun túlipanna í Hollandi. Verðbólgan og verðtrygging lána skilur eftir sig eignalausar fjölskyldur í þúsunda tali alveg eins og túlípanaæðið í Hollandi gerði.

Þjóðin þarf því ekki Villa verðtryggingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert