Segir Árna Pál hafa sigrað fulltrúa Jóhönnuarmsins

Björn Bjarason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi í gær sigrað frambjóðanda Jóhönnuarmsins innan hans sem vilji ekki annað en samstarf til vinstri. „Ætli þessi armur að halda völdum innan Samfylkingarinnar verður hann að finna öflugan frambjóðanda á móti Árna Páli í væntanlegum formannsslag.“

Hann segir stóru tíðindin í prófkjörum gærdagsins hins vegar þau að Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir komist í væntanlegan þingflokk Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa náð 4. sætinu í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi í gær. Elín Hirst standi í dyragættinni, en hún náði 5. sæti, og hugsanlega Óli Björn Kárason sem náði því sjötta. Það fari eftir sóknarhug í komandi kosningabaráttu hvort sex sjálfstæðismenn nái kjöri á þing.

„Sigmundur Ernir fær skell hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi og verður ekki á þingi fyrir hana. Kannski gerist hann pólitískur flóttamaður og eygir bjarta framtíð annars staðar. Erna Indriðadóttir er spútnik hjá Samfylkingunni á Austfjörðum og sest í annað sæti listans,“ segir Björn ennfremur og vísar til þess að Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lenti í 5. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Hann lýkur síðan skrifum sínum með því að geta þess að fjölmenni hafi verið við opnun  kosningaskrifstofu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík, í gær. „Er greinilega mikill hugur í sjálfstæðismönnum í Reykjavík að veita henni öflugan stuðning.“

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert