Rætt um endurskoðun kirkjujarðasamningsins

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra við setningu Prestastefnu 2012 í Hallgrímskirkju.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra við setningu Prestastefnu 2012 í Hallgrímskirkju.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að ríkið sé reiðubúið að setjast að samningaborðinu og endurskoða kirkjujarðasamninginn sem var gerður við þjóðkirkjuna árið 1997. „Við munum eiga viðræðufundi með kirkjunni um það efni.“

Þetta kom fram í sérstakri umræðu á Alþingi um stöðu þjóðkirkjunnar og safnaða landsins í ljósi niðurskurðar undanfarinna ára, en Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var málshefjandi.

Ögmundur segir að það sama eigi við kirkjuna og aðrar stofnanir í samfélaginu sem hafi orðið af peningum vegna hrunsins. „Spurningin er hins vegar sú á hvern hátt við færum þennan samning inn í framtíðina. Við erum tilbúin og opin fyrir því að setjast niður með kirkjunni með það fyrir augum að endurskoða þennan samning.“

Birgir spurði Ögmund hvernig hann sæi fyrir sér þróunina í samskiptum ríkis og kirkju á næstu árum. „Það er eðlilegt að hæstvirtur innanríkisráðherra svari því hvort að það séu fyrirhugaðar breytingar á lagaumhverfi þjóðkirkjunnar og þá hverjar,“ spurði Birgir.

Þá spurði Birgir hvort breytingar væru fyrirhugaðar á samkomulagi ríkis og kirkju frá 1997 og hvort einhverjar viðræður ættu sér stað um það. Loks hvort og þá hvernig ráðherra hygðist bregðast við áhyggjum, bæði lærðra og leikra, um fjárhagsstöðu sókna og afleiðinga hennar fyrir safnaðarstarfið.

Beðið tillagna frá kirkjuþingi

„Við lítum svo á, og ég held að ég tali þar fyrir hönd Alþingis almennt, að kirkjan sé sjálfstæð og sjálfráð um sín innri málefni,“ segir Ögmundur og bætir við að það hafi  verið grundvallarforsenda samkomulagsins frá 1997.

Hvað þetta snertir þá vinni kirkjuþing nú að tillögugerð og tillögurnar verði teknar fyrir í innanríkisráðuneytinu þegar þær liggja fyrir „en þó fyrst og fremst sem milligönguaðili að koma því á framfæri við Alþingi sem síðan sest yfir það“.

Ögmundur bendir á að þjóðkirkjan fái framlög á fjárlögum til að standa straum af rekstri sínum. Í höfuðdráttum séu framlögin af tvennum toga.

Í fyrsta lagi framlag til Biskupsstofu til að greiða laun tiltekins fjölda kirkjunnar þjóna og starfsmanna Biskupsstofu. Þetta sé bundið í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997. „Það er jafnframt samningsbundið og byggt á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi frá sama ári. En með því afsalaði þjóðkirkjan til ríkisins eignum og eru greiðslur ríkisins hugsaðar sem arður af þeim eignum,“ segir Ögmundur.

Í öðru lagi sé um að ræða framlag á fjárlögum til að standa straum af rekstrarkostnaði sókna þjóðkirkjunnar og kirkjuhúsa. Framlagið er bundið í lögum um sóknargjöld og fleira frá árinu 1987. Ögmundur bendir á að skv. eldri lögum um sama efni, þá hafi sóknirnar sjálfar annast álagningu og innheimtu sóknargjaldsins. Með gildandi lögum hafi sóknargjaldið, með samþykki kirkjunnar, hins vegar verið umreiknað yfir í tiltekið hlutfall tekjuskatts. Innheimt með honum og skilað til sóknanna með mánaðarlegum greiðslum.

„Því hefur verið haldið fram að með þessari breytingu sé nú sá eðlismunur á að ríkið innheimti ekki lengur sóknargjöld og framlagið til sóknanna sé eins og hvert annað framlag úr ríkissjóði, fjármagnað með almennri skattheimtu. Að mínum dómi er þetta misskilningur. Sóknargjaldið var alltaf hugsað sem gjald þeirra sem tilheyra þjóðkirkjunni. Til hennar fyrir félagsaðild,“ sagði Ögmundur.

Kirkjan ekki andmælt að hún lúti sömu skerðingu og aðrir

Eftir efnahagshrunið árið 2008 voru bæði framlögin til kirkjunnar skert. „Framlögin sem byggjast á kirkjujarðasamkomulaginu hafa verið skert með samkomulagi við þjóðkirkjuna og hefur kirkjuþing árlega samþykkt slíka skerðingu,“ sagði Ögmundur.

Birgir segir að það sem sé alvarlegast í þessu sé að ríkið hafi innheimt tiltekin gjöld á tilteknum forsendum sem sóknargjöld „en skilar ekki nema hluta af þeim til þess sem er hinn réttmæti eigandi“, sagði hann.

„Ríkið hefur seilst ofan í vasa kirkjunnar, ef svo má segja, með því að halda eftir hluta af því gjaldi sem ríkið hefur innheimt fyrir hönd safnaðanna, sóknanna,“ sagði hann ennfremur.

„Kirkjan hefur aldrei andmælt því að hún lúti sömu skerðingu og aðrir aðilar í þjóðfélaginu. Hún hefur aldrei gert ágreining um þetta. Hún hefur hins vegar viljað láta hið sama ganga yfir sig og aðra. Það sem gerðist með sóknargjöldin var að þau voru látin lúta skerðingum en síðan ekki verðbætt. Það er nokkuð sem kom fram í skýrslu sem ég lét gera í fyrra og sýndi fram á að sóknargjöldin hefðu sætt meiri skerðingu en gerðist almennt um stofnanir hins opinbera,“ sagði Ögmundur.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert