Má ekki heita X

Þau mega heita Leila, Tolli og Kali en ekki X.
Þau mega heita Leila, Tolli og Kali en ekki X. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mannanafnanefnd vill ekki samþykkja nafnið X sem millinafn. Hins vegar hefur nefndin samþykkt eiginnöfnin Tolli, Leila og Kali.

Í úrskurði nefndarinnar um kvenmannsnafnið Leila segir að nafnið takið íslenska beygingu og uppfylli öll önnur skilyrði mannanafnalaga og sé því samþykkt.

Sömu rök gefur nefndin fyrir því að samþykkja karlmannsnafnið Kali. Nafnið tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Kala, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn og er því samþykkt.

Öðru máli gegnir um beiðni um millinafnið X.

Í úrskurði nefndarinnar segir: „Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, um mannanöfn, eru upp talin almenn skilyrði þess að fallist verði á millinafn. M.a. kemur þar fram það skilyrði sbr. 4. mgr. 6. gr. laga um  mannanöfn að millinafn, hvort sem er almennt millinafn eða sérstakt millinafn samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laganna, sé ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Að öðrum kosti er óheimilt að fallast á það.

 Ritháttur millinafnsins X  getur ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls enda er bókstafurinn x ekki ritaður í upphafi orðs í íslensku.

Úrskurðarorð: Beiðni um millinafnið X  er hafnað.“

Nefndin fellst hins vegar á að taka karlmannsnafnið Tolli á mannanafnaskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert