Kirkjan þjónusti ferðafólk

Kirkjuþingið er haldið í Grensáskirkju í Reykjavík.
Kirkjuþingið er haldið í Grensáskirkju í Reykjavík. Ljósmynd/kirkjuthing.is

Fjármál þjóðkirkjunnar voru talsvert til umræðu á Kirkjuþingi sem staðið hefur yfir í Grensáskirkju frá því á laugardag. Nokkrar tillögur lágu varðandi fjármál og var meðal annars samþykkt að aðstoða kirkjur sem vilja finna leiðir til að afla frekari fjár, til dæmis í tengslum við þjónustu við ferðafólk.

Alls hafa 43 þingmál verð lögð fyrir kirkjuþing sem er það 49. í röðinni. Meðal annars var samþykkt að sameina tvö prestaköll á Vestfjörðum, Patreksfjarðarprestakall og Tálknafjarðar- og Bíldudalsprestakall. Heiti hins sameinaða prestakalls verður Patreksfjarðarprestakall. Sameiningin tekur gildi 1. janúar 2013.

Þá var samþykkt að kynna tillögu að sameiningu Garða- og Saurbæjarprestakalla í Vesturlandsprófastsdæmi. Akranes er í Garðaprestakalli. Ekki var kveðið á um gildistöku.

Af öðrum skipulagsmálum má nefna tillögur um stórfelldar breytingar á skipan prestakalla á höfuðborgarsvæðinu, þar á meðal sameiningar fjölmennra prestakalla. Því máli var vísað til kirkjuráðs til frekari skoðunar. Tillaga um sameiningu prófastsdæma á höfuðborgarsvæðinu verður send í hérað og aflað umsagna.

Af öðrum málum sem fyrir lágu var tillaga um að færa Þorláksbúð. Hún var felld.

Fyrir þinginu lá einnig tillaga varðandi miðaldadómkirkju í Skálholti. Kirkjuþing hvatti til þess að deiliskipulagsvinnu í Skálholti yrði haldið áfram og mikilvægt væri að skuldbinda kirkjuna ekki með nokkrum hætti nema eftir víðtæka kynningu og sátt. Ef af slíkri byggingu yrði væri mikilvægt að ásýnd staðarins og andblær haldist og að rekstrarlegur ávinningur staðarins verði tryggður.

Þinghlé var svo gert á störfum kirkjuþings í kvöld. Það kemur saman að nýju á næstu mánuðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert