LÍÚ frestar atkvæðagreiðslu um verkbann

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ.
Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ. mbl.is/Ómar

Stjórn LÍÚ ákvað á fundi sínum í dag að fresta atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna um verkbann í kjaradeilu útvegsmenna og sjómanna

Fram kemur í tilkynningu frá LÍÚ, að viðræður hjá ríkissáttasemjara um nýjan kjarasamning hafi verið árangurslausar. Þann 5. nóvember samþykkti stjórn Samtaka atvinnulífsins að atkvæðagreiðsla um boðun verkbanns færi fram. Það hafi verið gert í samræmi við samþykkt aðalfundar LÍÚ að ef samningar um endurskoðun kjarasamnings útvegsmanna og sjómanna næðust ekki skyldi efnt til slíkrar atkvæðagreiðslu.

„Það er mjög afdrífaríkt skref að fara í verkbann. Á sama tíma og mikill efnahagssamdráttur er í mörgum viðskiptalöndum okkar fyrir sjávarafurðir er framboð frá helstu samkeppnisþjóðum okkar að aukast verulega. Staðan á mörkuðum er því óvenjuviðkvæm um þessar mundir,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, í tilkynningunni.

Þá segir að Adolf ítreki að um frestun sé að ræða.

„Því miður kann verkbann að vera óumflýjanlegt síðar. Ekki verður komist hjá því að endurskoða tekjuskiptinguna á milli útvegsmanna og sjómanna og margföldun veiðigjaldsins er kornið sem fyllti mælinn,“  segir Adolf ennfremur.

Fram kemur í tilkynningunni, að útgerðarmenn og sjómenn deili kjörum í hlutaskiptakerfi þar sem laun og launatengd gjöld vegna sjómanna séu tæp 40% að meðaltali. 

„Þegar samið er um hlutfallsskiptingu af 100 krónum og ríkið tekur 15 er ljóst að þeir sem eftir sitja þurfa að skipta 85 krónum en ekki 100. Hvaða fyrirtæki eða heimili sem er þyrfti að grípa til ráðstafana ef tekjur þeirra lækka skyndilega um 15% og það sama á við um útgerðarfyrirtæki,“ segir Adolf að lokum í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert