Viðburðaríkur morgunn í héraðsdómi

Börkur Birgisson í lögreglufylgd.
Börkur Birgisson í lögreglufylgd. mbl.is/Júlíus

Þó svo aðeins lítið sé liðið af aðalmeðferð yfir Annþóri Kristjáni Karlssyni, Berki Birgissyni og átta öðrum karlmönnum fyrir Héraðsdómi Reykjaness hefur þetta verið viðburðaríkur tími. Afdrifaríkust ákvarðananna hlýtur þó að vera takmörkun fréttaflutnings frá málinu.

Þar sem fjölskipaður dómur í málinu féllst á kröfu ákæruvaldsins um að fjölmiðlar megi ekki greina frá því sem gerist í dómsal verða engar fréttir skrifaðar eða sagðar af þeim skýrslutökum sem fram fara í dag. Og verður það ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir hádegið á morgun sem fjölmiðlar geta greint frá því sem hefur þegar gerst.

Óhætt er þó að fara yfir það sem gerðist í dómsal áður en Ástríður Grímsdóttir dómsformaður tók ákvörðun um takmörkun umfjöllunar fjölmiðla. 

Fá ekki að vera inni þegar aðrir gefa skýrslu

Aðalmennirnir tveir í málinu voru fluttir í héraðsdóm í lögreglufylgd en þeir afplána fyrri dóma á Litla-Hrauni. Aðrir sakborningar voru hins vegar ekki mættir við upphaf aðalmeðferðar í morgun. Lögregla er með mikinn viðbúnað í héraðsdómi, bæði inni í dómsal og fyrir utan dómhúsið.

Eftir að dómsformaður las þeim Annþóri og Berki pistilinn - og sagði þá fá eina áminningu en ef þeir trufluðu vinnufrið aftur yrði þeim vikið úr salnum - þá var tekin sú ákvörðun að hver og einn sakborningur skuli gefa skýrslu og aðrir sakborningar megi ekki vera í dómsalnum á meðan. Þeir mega hins vegar sitja áfram eftir að þeir gefa skýrslu sjálfir.

Þessu mótmæltu verjendur Annþórs og Barkar og sögðu þetta brjóta gegn réttindum um réttláta málsmeðferð. Einnig að ekki hefðu verið gefin rök fyrir röð sakborninga við skýrslugjöfina en ekki var farið eftir stafrófsröð. 

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari í málinu, segir ljóst að niðurstaða í málinu ráðist af framburði ákærðu og vitna í málinu. Ótækt sé að ákærðu fái að hlusta á framburð annarra. 

Dómari féllst á þetta og var hafður sá háttur á þegar sakborningar hófu að gefa skýrslur í málinu. Nánar verður fjallað um þær skýrslur þegar allir sakborningar og vitni hafa komið fyrir dóminn.

Þó má taka fram að dagskráin hefur gengið vonum framar, vinnufriður hefur ríkt og fyrir vikið varð hádegishléið lengra en gert var ráð fyrir. Aðalmeðferð í málinu heldur svo áfram etir hádegið og er gert ráð fyrir að hún standi til klukkan 17 í dag.

Hvað framhaldið áhrærir þá má búast við að aðalmeðferð í málinu ljúki ekki fyrr en á föstudag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert