Spurt um Dróma á Alþingi

Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson mbl.is

„Af hverju var Drómi stofnaður?“ spurði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra  í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Ekki yrði annað séð en að forsætisráðherra hlyti að hafa komið að ákvörðun um stofnun Dróma.

„Ég get tekið undir það að saga Dróma er ein sorgarsaga frá upphafi og það hefur komið niður á viðskiptavinum sem ekki hafa fengið þar sömu fyrirgreiðslu og er í bankakerfinu. Þessi mál hafa verið lengi í skoðun og ég tel að það þurfi að grípa til aðgerða. FME hefur fengið fjölda kvartana vegna þessa,“ svaraði forsætisráðherra.

„Ég held að menn hljóti að skoða hvort ástæða sé til þess að flytja eignasafnið frá Dróma með einhverjum hætti, til Seðlabanka eða Arion banka.  Það er ekki hægt að una við að viðskiptavinir Dróma fái aðra fyrirgreiðslu en viðskiptavinir annarra banka.“

Forsætisráðherra sagði að verið væri að skoða málið og búist væri við niðurstöðum þess um miðja næstu viku.

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert