Kvartaði yfir seinagangi Evrópusambandsins

Sjávarútvegsráðherra Bretlands, Richard Benyon, gagnrýndi Evrópusambandið harðlega fyrir seinagang við að grípa til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar á fundi sem fram fór síðastliðinn þriðjudag í bænum Scalloway á Hjaltlandseyjum.

Fram kemur á fréttavef dagblaðsins Shetland Times að Benyon hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að Evrópusambandið gripi sem fyrst til slíkra refsiaðgerða í því skyni að vernda makrílstofninn en sambandið samþykkti löggjöf sem heimilaði beitingu slíkra aðgerða í haust sem tók formlega gildi í október.

Benyon sagði ákvörðunarferli Evrópusambandið í þessum efnum vera furðulegt og alltof flókið og alls ekki í anda þess hvernig taka ætti á slíkum málum. „Við slíkar aðstæður verður að bregðast hratt við og grípa til refsiaðgerða sem skila sér.“

Þá sagðist ráðherrann hafa ítrekað þrýst á stjórnvöld á Íslandi og í Færeyjum til þess að reyna að koma vitinu fyrir þau. Hins vegar vildi hann ekki spá fyrir um það hvenær Evrópusambandið kynni að grípa til refsiaðgerða.

Benyon sagði ennfremur að ýmis Evrópuríki högnuðust óbeint á makrílveiðum Íslendinga og Færeyinga með því að flytja inn makríl sem þjóðirnar tvær veiddu. „Þetta er gert á fullkomlega lögmætan hátt en ég tel að stöðva ætti þetta með refsiaðgerðum.“

Frétt Shetland Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert