Yfir 200 í borgaralega fermingu

Ungmenn á námskeiði Siðmenntar.
Ungmenn á námskeiði Siðmenntar. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Skráningar í borgaralega fermingu Siðmenntar stefna í met þetta árið. Nú þegar hafa yfir 200 ungmenni skráð sig en 214 fermdust borgaralega árið 2012. Ef fram fer sem horfir munu á bilinu 220-230 ungmenni fermast á vegum Siðmenntar á næsta ári sem er tvöföldun á aðeins fimm árum.  

Árið 2013 eru 25 ár frá því að Siðmennt hóf að bjóða ungmennum á Íslandi valkost með borgaralegri fermingu. Það var árið 1989 sem fyrsta athöfnin fór fram á vegum Siðmenntar og voru 16 ungmenni í fyrsta árganginum. Fjölgunin hefur verið stöðug síðan. Árið 1998 fermdust 49, árið 2008 fermdust 112 ungmenni.  

Vegna aukins fjölda á árinu 2012 voru samtals 7 athafnir á 7 stöðum á landinu m.a. á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Reykjavík og í fyrsta sinn á Selfossi og í Kópavogi. Eitt af kjörorðum Siðmenntar hefur verið að það sé mikilvægt að ungmenni hafi val þegar þau komast á fermingaraldur.  

Fermingarbörn á vegum Siðmenntar sækja námskeið þar sem þau læra ýmislegt sem er góður undirbúningur fyrir það að verða fullorðinn með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Ungmenni hvaðanæva af landinu mynda nokkra fermingarhópa sem sækja undirbúningsnámskeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert