Ekki nægar upplýsingar um fyrirætlanir Huangs Nubo

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Enn skortir upplýsingar um fyrirhugað fjárfestingarverkefni Zhongkun Grímstaða, fyrirtækis Huangs Nubo, varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á Fjöllum. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, sem sent var til Zhongkun Grímstaða og dagsett er í dag.

Nefnd fimm ráðherra og ráðuneyta, sem falið var að fjalla um umsókn Zhongkun Grímstaða, kynnti niðurstöður sínar á ríkisstjórnarfundi í morgun. „Samráðshópurinn hefur lokið störfum og niðurstaða hans hefur verið kynnt í ríkisstjórn. Það er niðurstaða hópsins að enn skorti upplýsingar um verkefnið,“ segir í bréfinu.

„Í ljósi þess tíma sem liðinn er frá framlagningu umsóknarinnar og með vísan til þess að báðir aðilar eru sammála um að fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið lagðar fram, þá er það niðurstaða ráðuneytisins að ekki verði gengið frá fjárfestingarsamningi á grundvelli fyrirliggjandi umsóknar. Hyggist félagið leggja fram viðbótarupplýsingar er eðlilegra að þær komi fram sem fylgigögn með endurnýjaðri umsókn á grundvelli laga nr. 99/2010 og fylgdu henni til formlegrar umfjöllunar á vettvangi sérstakrar nefndar sem yfirfer umsóknir og fylgigögn sbr. 4. gr. laganna,“ segir í bréfinu.

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert