Áhersla á tillögur að lausnum

Frosti Sigurjónsson, oddviti framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Frosti Sigurjónsson, oddviti framsóknarmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður.

„Þeir sem eru á listunum eru mjög stoltir og ánægðir með traustið sem þeir hafa fengið, en listarnir voru samþykktir nánast einróma. Það er gott fólk á þessum listum með breiðan bakgrunn og mismunandi reynslu,“ sagði Frosti Sigurjónsson sem leiðir lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi þingkosningum.

Afstaðan að leggja umsókn að ESB til hliðar

„Það er heilmikill metnaður til þess að gera gott fyrir sitt kjördæmi,“ sagði Frosti. Spurður hvort í því fælust einhver skilaboð að oddvitar beggja lista í Reykjavík eru með mjög skýra afstöðu gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið sagði hann: „Framsóknarflokkurinn stillir upp lista með fólki sem hefur þessa afstöðu mjög skýra og er kannski sá flokkur sem er með hvað skýrasta stefnu í þessu máli.

Afstaða flokksins er að leggja til hliðar umræðurnar og setja þær ekki í gang aftur fyrr en að ljóst er að meirihluti þjóðarinnar vill ganga í Evrópusambandið. Þá er eðlilegt að bera það undir þjóðina hvort umsókn skuli hafin að nýju. En það er ljóst að núna er þetta ferli hálfpartinn andvana og spurning hvernig á að ljúka því með kurteislegum hætti í sátt við alla,“ sagði Frosti.

Áhersla á að tala ekki bara um vandamál heldur koma með lausnir

„Það eru auðvitað miklu stærri atriði sem við erum að velta fyrir okkur og vandamál sem þarf að leysa, raunveruleg vandamál í fjármálum, atvinnumálum og þeim þáttum sem við viljum koma fram með lausnir. Ég held að það sé kannski það sem þessi hópur sem er á framboðslistum leggur mikla áherslu á; að tala ekki bara um vandamálin heldur koma virkilega með tillögur að lausnum.

Við ætlum að hittast á mánudaginn þessi hópur og byrja að vinna af kappi, greina þessi málefni og koma með tillögur að lausnum. Það er hellings kraftur og metnaður í fólkinu að gera ekki bara gagn fyrir Framsóknarflokkinn heldur alla landsmenn. Menn vilja láta gott af sér leiða,“ sagði Frosti að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert