Minnislitlir starfsmenn Glitnis

Skýrslutökur yfir fyrrverandi starfsmönnum Glitnis hófust í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag við aðalmeðferð yfir þeim Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni. Helst kemur á óvart hversu minnislitlir starfsmennirnir eru um þá atburði sem spurt er um.

Til að mynda kom fyrir dóminn lánastjóri á alþjóðasviði sem starfaði undir Guðmundi Hjaltasyni, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans. Starfsmaðurinn, kona, kom að undirbúningi láns til Vafnings vegna skuldar Þáttar við Morgan Stanley, en Milestone var í ábyrgð vegna skulda Þáttar og veð fyrir skuldunum voru hlutabréf í Glitni.

Farið hefur verið yfir ákæruna í málinu og framburð þeirra Lárusar og Guðmundar á mbl.is í dag.

Umrædd kona var snemma í skýrslutökunni spurð hvort hún hefði haft samband við Guðmund eða Lárus og viðurkenndi hún að hafa hitt Guðmund ekki alls fyrir löngu.

Hún, eins og aðrir, sagðist ekkert vita um það hvernig lán sem átti að fara til Vafnings endaði sem peningamarkaðslán til Milestone. Að öðru leyti mundi hún lítið eftir atvikum þann 8. febrúar 2008, þ.e. daginn sem lánið var veitt.

Borið var undir hana tölvubréf sem hún sendi samstarfsmanni sínum sunndaginn 10. desember 2008 sem bar heitið Tossalisti en á listanum var í nokkrum liðum farið yfir það sem út af stóð vegna þeirrar fléttu sem ákært er fyrir.

Hún var spurð út í það hvers vegna hún hefði tekið umræddan lista saman. Hún sagðist ekki muna það né eftir listanum en kannaðist við að hafa sett hann saman. Þá ítrekaði hún að hún myndi ekkert eftir framkvæmd lánsins.

Skúli Magnússon héraðsdómari spurði konuna nokkuð út í tossalistann. Meðal annars lið þar sem spurt er hvort ekki þurfi staðfestingu áhættunefndar, en áhættunefnd bankans hafði fyrir helgina samþykkt lán til Vafnings.

Konan sagðist ekki muna eftir plagginu en eflaust hafi vaknað spurningar hjá henni miðað við stöðu mála hvort ekki þyrfti staðfestingu áhættunefndar. „Ég myndi halda að þetta snerist um lánveitingu til Milestone en ekki Vafningslánið.“

Spurð að því hvort hún geti ekki sagt frá því af eigin raun þegar hún bjó til listann svaraði hún: „Því miður. Hann kom upp í skjölum í þessu ferli [skýrslutökum hjá sérstökum saksóknara] en ég mundi ekki eftir tilurð hans.“

Fyrsti dagur aðalmeðferðar stendur enn yfir og enn eru nokkur vitni eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert