DV hafnar beiðni Stefáns Einars

Reynir Traustason.
Reynir Traustason. Ingó

Ritstjórn DV hafnar beiðni Stefáns Einars Stefánssonar, formanns stéttarfélagsins VR, um að birt verði afsökunarbeiðni á forsíðu blaðsins. Stefán Einar fór fram á afsökunarbeiðni vegna umfjöllunar DV síðastliðinn mánudag um að núverandi sambýliskona Stefáns Einars hefði verið valin úr hópi hundraða umsækjenda um eina æðstu stöðu stéttarfélagsins VR í apríl síðastliðnum.

Stefán Einar hefur krafist þess með fréttatilkynningu, grein í Morgunblaðinu í dag og með bréfi lögmanns til DV að beðist verði opinberlega afsökunar á umfjölluninni og meintar rangfærslur leiðréttar.

Í yfirlýsingu sem Reynir Traustason, ritstjóri DV sendi frá sér í dag, segir að í kröfunni láist Stefáni og lögmanni hans að benda á meintar rangfærslur.

„Í ásökunum sínum í garð DV tiltekur Stefán Einar að konan hafi ekki verið sambýliskona hans á þeim tíma sem ráðningin fór fram. Þessi ásökun hans er tilhæfulaus, því ekki segir í umfjöllun DV að konan hefði þá þegar, er hún var ráðin í stöðuna í apríl, verið orðin sambýliskona Stefáns Einars,“ segir í yfirlýsingu Reynis.

„DV stendur við frétt sína og álítur það skyldu sína að fjalla um hvernig ráðningamálum er háttað hjá einu stærsta stéttarfélagi landsins. Rétt er að benda á að í fimmtu grein siðareglna VR er kveðið á um gagnsæi í ákvarðanatöku og í sjöttu grein er kveðið á um að félagið sýni hlutlægni í ákvörðunum sínum. Þrátt fyrir þetta hefur formaður VR neitað að upplýsa á hvaða forsendum viðkomandi umsækjandi var ráðinn umfram aðra og hver aðkoma hans að ráðningarferlinu var,“ skrifar Reynir.

Frétt mbl.is: Segir DV hafa vegið að æru sinni

Stefán Einar Stefánsson.
Stefán Einar Stefánsson. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert