1.500 skjálftar í nóvember

Jarðskjálftar í nóvember. Mynd fengin af vef Veðurstofunnar.
Jarðskjálftar í nóvember. Mynd fengin af vef Veðurstofunnar.

Tæplega 1.500 jarðskjálftar mældust í nóvember með jarðskjálftamælakerfi Veðurstofunnar. Mesta virknin var í Eyjafjarðarál og þar mældist stærsti skjálftinn, sem var 3,8 að stærð. Lítið jökulhlaup varð úr Grímsvötnum í síðasta mánuði.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að um 970 jarðskjálftar hafi verið staðsettir norður af landinu, þar af rúmlega 750 í Eyjafjarðarál. Sá stærsti var 3,8 að stærð hinn 3. nóvember kl. 15:24. Nokkrir jarðskjálftar yfir þremur stigum mældust þar í byrjun mánaðarins. Nokkuð hafði þá dregið úr hrinunni, en þó heldur hún áfram og virknin var enn í gangi í lok mánaðarins.

Langflestir skjálftar voru á upptakasvæði 5,6 stiga skjálftans sem varð 21. október. Önnur skjálftaþyrping mældist um 10 kílómetrum austsuðaustur af þessu svæði. Að auki mældust um 20 smáskjálftar á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu, milli Gjögurtáar og Flateyjar, og einnig á Skjálfandaflóa. Allir voru minni en tvö stig.

Þá varð skjálftahrina í Öxarfirði í byrjun mánaðarins. Tæplega 160 skjálftar voru staðsettir þar. Sá stærsti mældist 3,2 stig hinn 1. nóvember kl. 03:00. Nokkrir smáskjálftar mældust á Grímseyjarbelti og suðsuðaustan Kolbeinseyjar. Sá stærsti var 2,1 að stærð austan Grímseyjar hinn 30. nóvember kl. 19:36. Að kvöldi 7. nóvember varð smáhrina við Þeistareyki. Um 10 skjálftar voru staðsettir, allir minni en tvö stig. Smávirkni var líka í Kröfluöskjunni í nóvember.

Í mánuðinum hljóp úr Grímsvötnum. Staðfest var með leiðnimælingu í Gígjukvísl að hlaupvatn væri í ánni. Hlaupið var ekki mikið, enda stutt síðan hljóp síðast úr vötnunum og lítið vatn hafði safnast fyrir. Vatnshæð jólst lítillega í Gígjukvísl og rennsli var minna en á hlýjum sumardegi. Jarðskjálftamælir á Grímsfjalli sýndi smáóróa, sem benti til að vatn væri að brjóta sér leið undan jöklinum. Hlaupið náði hámarki 26. nóvember. Skjálftar mældust á svæðinu og sennilegt að einhverjir þeirra tengist hlaupinu.

Nánari á vef Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert