„Ég vona að þetta endi vel“

Þetta er ein af þeim myndum sem Matvælastofnun tók á …
Þetta er ein af þeim myndum sem Matvælastofnun tók á Ingunnarstöðum af mjaltaþjóninum.

„Ég vona að þetta endi vel,“ segir Daníel Jónsson, bóndi á Ingunnarstöðum í Reykhólahreppi, en Matvælastofnun hefur svipt hann starfsleyfi. Ekki hefur verið tekin mjólk hjá honum í heilan mánuð.

„Ég tel að þetta séu allt of harkalegar aðgerðir gagnvart mér. Það var ekki mikið að hjá mér. Mjólkin hefur t.d. alltaf farið í fyrsta flokk,“ sagði Daníel.

Í bréfi Matvælastofnunar er gerð athugasemd við fimm atriði; neysluvatn, þrif á mjaltaþjóni, flór, mjólkurhús, handþvottaaðstöðu og umgengni. Daníel segir að gólf í mjólkurhúsi sé steypt en ekki með flísum og því sé erfitt að þrífa það. Hann hafnar því að umgengni í fjósi eða mjólkurhúsi sé slæm. Varðandi saurgerla í vatni segir Daníel að vatnssýnið hafi verið tekið í leysingaveðri. Eftir að í ljós kom að vatnið stóðst ekki kröfur hefði hann farið að skoða vatnsbólið og fundið gat á leiðslu. Búið væri að lagfæra það og nýtt vatnssýni hefði leitt í ljós að ekkert væri að vatninu. Hann sagðist því vera búinn að gera þær lagfæringar sem gerð var krafa um.

Gekk úr flórnum upp í jötu

Daníel sagðist vera ósáttur við vinnubrögð héraðsdýralæknis. „Ég get nefnt sem dæmi að þegar hún kom hér fyrst og var að fetta fingur út í óhreinindi á flór og fleira gekk hún um flórinn og síðan beint upp í jötuna hjá kálfunum á skítugum stígvélunum. Ég spurði hvort þetta samrýmdist verklagi dýralæknis. Það varð fátt um svör,“ sagði Daníel.

Daníel sagðist hafa fengið bréf með hótun um lokun í haust. Það hefði verið skrifað á miðvikudegi en borist sér í hendur á mánudegi og frestur til að svara rann út á þriðjudegi. Banni við að taka við mjólk hefði verið skellt á stuttu eftir að Matvælastofnun fékk andmælabréfið í hendur.

Daníel kærði ákvörðun Matvælastofnunar til atvinnuvegaráðuneytisins. Ráðuneytið er ekki búið að svara kærunni efnislega. Daníel óskaði eftir að fá að selja mjólk á meðan verið væri að fara yfir málið í ráðuneytinu, en því var hafnað. Í svari ráðuneytisins segir að það vilji láta neytendur njóta vafans. Engin mjólk hefur því verið tekin á Ingunnarstöðum í heilan mánuð.

Daníel sótti um starfsleyfi aftur til Matvælastofnunar í gær og bíður hann núna eftir svörum frá stofnuninni.

„Ég er með um 50 kýr í fjósi og framleiði um 750 lítra á dag. Maður hefur líka áhyggjur af því að svo geti farið að Matvælastofnun sé í þessu máli að brjóta ákvæði um dýravelferð. Bóndi sem hefur engar tekjur á erfitt með að kaupa fóður fyrir skepnurnar. Fóðrið er ekki ókeypis,“ sagði Daníel.

Daníel sagði að ef hann fengi ekki að leggja inn mjólk fljótlega tækist honum ekki að framleiða upp í mjólkurkvótann á þessu ári. Tekjutapið væri því mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka