2.200 ný störf fyrir langtímatvinnuleitendur

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. Morgunblaðið/Eggert

Í dag verður undirrituð samstarfsyfirlýsing ríkis, sveitarfélaga, stéttarfélaga og atvinnurekenda um nýtt átaksverkefni gegn atvinnuleysi.

Undirrituð verður samstarfsyfirlýsing milli velferðarráðuneytisins, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, VIRK starfsendurhæfingar-sjóðs  og Starfs vinnumiðlunar og ráðgjafar um nýtt átaksverkefni gegn atvinnuleysi.

Markmið verkefnisins er að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins til þátttöku að nýju á vinnumarkaði. Samtals er um að ræða 3.700 atvinnuleitendur og er markmiðið að þeim verði öllum boðin vinna eða starfsendurhæfing á árinu 2013. Þannig á að tryggja að enginn falli af atvinnuleysisbótum án þess að fá slíkt tilboð.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Áætlað er að 60% taki tilboði um vinnu og þurfa samtals 2.200 sex mánaða störf að vera í boði á árinu 2013. Sveitarfélög munu að lágmarki skapa 660 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (30%) á tímabilinu, ríki 220 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (10%) og almenni vinnumarkaðurinn 1.320 starfstengd vinnumarkaðsúrræði (60%).

Við sama tækifæri munu Jón Gnarr, borgarstjóri, og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, undirrita samning um útfærslu verkefnisins í Reykjavík en borgin mun skapa 325 störf.

Alls munu verða til rúmlega 1.000 störf fyrir langtímaatvinnuleitendur í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert