Garðbæingar höfnuðu Kópavogsbúum

Kópavogur
Kópavogur Ómar Óskarsson

Bæjarstjórn Garðarbæjar hafnaði í fyrr í desembermánuði beiðni Kópavogsbæjar um viðræður um sameiningu sveitarfélaga. Bæjarfulltrúi VG í Kópavogi lagði fram tillögu um sameiningu Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness og lýsti hann á fundi bæjarráðs í vikunni yfir vonbrigðum með höfnunina.

Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi VG í Kópavogi, lagði fram tillöguna um sameiningu sveitarfélaga í síðasta mánuði. Lagði hann að auki til að nýja sveitarfélagið gæti heitið Heiðmörk. Tillagan gekk út á að stofnuð yrði viðræðunefnd allra sveitarfélaganna sem skila myndi greinargerð í mars 2013. Samþykkt var að fela bæjarstjóra að leita eftir viðræðum við önnur bæjayfirvöld.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, sagði við sama tilefni að sameiningin væri ekki tímabær og greiddi hann atkvæði gegn tillögunni.

Nú liggur fyrir að bæjarstjórn Garðabæjar hefur hafnað beiðni um viðræður. Ólafur Þór lagði fram bókun á bæjarráðsfundi Kópavogs í vikunni sökum þessa. „Það veldur vonbrigðum að kjörnir fulltrúar í Garðabæ vilji ekki einu sinni ræða möguleika á sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“

Þá segir Ólafur að tækifærin sem liggi í sameiningu bíði því „betri tíma eða annarra stjórnenda eftir næstu kosningar.“

Málið var svo tekið fyrir á bæjarráðsfundi Hafnarfjarðar í gær. Þar kom fram að bæjarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem mynda meirihluta, telja ekki grundvöll til að fara út í slíkar viðræður þar sem Garðabær hafi þegar hafnað þeim.

Sjálfstæðismönnum í borgarráði Hafnarfjarðar þótti miður að viðræðum væri hafnað án frekari skoðunar í hópi fulltrúa sveitarfélaganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert