„Íslendingar láta ekki berja sig“

Össur Skarphéðinsson utanríksiráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríksiráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um helmingur af starfi utanríkisráðuneytisins undanfarið hefur miðað að því að fyrirbyggja eða „nudda niður“ þær refsiaðgerðir gagnvart Íslandi sem boðaðar hafa verið af Evrópuþinginu vegna makríldeilunnar. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra á Alþingi í morgun. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók makríldeiluna upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og vísaði til orða Steingríms J. Sigfússonar í viðtali við CNN, sem mbl.is sagði frá í gær, um að sífellt erfiðara væri að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og það segi sig sjálft að refsiaðgerðir geti skaðað mjög andrúmsloftið.

Firring að segja viðræður ganga vel

Ragnheiður Elín sagði ummæli Steingríms lýsa vel afstöðu Vinstri grænna og spurði utanríkisráðherra „hvort ekki sé kominn tími til að takast á við staðreyndir“ og gefa íslensku þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn og kjósa um hvort halda skuli aðildarferlinu áfram. Sagði hún það algjöra firringu að halda fram að aðildarviðræðurnar gangi vel. „Áætlunum er sífellt breytt til þess að hægt sé að segja „þetta gengur samkvæmt áætlun“, en íslenska þjóðin sér alveg að þetta gengur ekki neitt.“

Össur sagðist sammála Steingrími um að ekki sé hægt að láta eins og ekkert sé. „Við horfumst í augu við að makríldeilan harðnar og það er einmitt þess vegna sem svona helmingurinn af starfi ráðuneytisins síðustu mánuði hefur miðast að því að fyrirbyggja eða nudda niður þær boðuðu refsiaðgerðir sem komið hafa frá Evrópuþingsinu.“

Kyssi ekki vöndinn

Árangurinn er sá að sögn Össurar að búið er að „nudda burt verstu tillögunum“ sem þar voru og líkurnar á viðskiptaþvingunum gegn Íslandi séu minni en áður. Hins vegar sagði hann að ef til refsiaðgerða kæmi þyrfti auðvitað að endurmeta stöðuna.

„Íslendingar láta ekki berja sig, þótt slík hafi nú verið háttsemi í tíð fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, sem lét útlendinga berja sig hér hvað eftir annað,“ sagði Össur og var svarað með framíköllum úr þingsal. Færðist hann þá allur í aukana og talaði talsvert fram yfir tímamörk við klingjandi bjölluhljóm forseta Alþingis: 

„Við skulum þá bara rifja það upp hverjir það voru sem sögðu það við þá sem vildu hér senda flugvélar til að vernda okkur, að við kysstum ekki á svipu kvalara okkar. Var það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem lá hundflatur fyrir Bretum þá, það var Samfylkingin sem tók upp hanskann fyrir Íslendinga.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert