Þurfa að fjarlægja húsin fyrir áramót

„Þetta hús hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig og mína fjölskyldu,“ segir Ragna Þorsteins, en hún stendur frammi fyrir því að þurfa að fjarlægja fyrir árslok sumarhús sem hún á við Elliðavatn.

Sumarhúsið er eitt 20 húsa sem eru í Heiðmörk. Orkuveitan á landið og hún ákvað fyrir einu ári að framlengja ekki lóðarleigusamninga sem renna út um áramót. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að húsin standi á vatnsverndarsvæði og samkvæmt aðalskipulagi sé ekki gert ráð fyrir að þar sé frístundabyggð. Þessi byggð hljóti því að vera víkjandi.

Sumarhús Rögnu var byggt árið 1928, en foreldrar hennar eignuðust það 1938. Það er í mjög góðu standi, en það var allt tekið í gegn fyrir um 25 árum. Ragna segir að hún hafi að nokkru leyti alist upp í þessu húsi. Á hverju vori hafi fjölskyldan flutt upp í húsið í Heiðmörk og dvalið þar fram á haust. Faðir sinn hafi stundað vinnu í Reykjavík, en hann og nágrannar hans í Heiðmörk hafi tekið strætó í Heiðmörk á hverjum morgni til að fara í vinnuna.

Á stríðsárunum var mælst til þess við barnafólk í Reykjavík að þeir sem það gætu flyttu úr bænum yfir sumartímann. Ragna segir að sumarhúsabyggðin í Heiðmörk eigi sér því merka sögu og óþarfi sé að eyða henni.

Þegar lóðarleigusamningar voru endurnýjaðir árið 2004 var samið um að eigendur húsanna gerðu umbætur í fráveitumálum. Ragna segir að hún hafi sett upp nýja rotþró sem hafi kostað sig um eina milljón króna. Nú sé henni hins vegar gert að fjarlægja húsið og öll mannvirki á lóðinni, þar á meðal væntanlega rotþróna.

Eiríkur Hjálmarsson segir að vísbendingar séu um að ekki hafi allir húseigendanna á svæðinu staðið við skuldbindingar sínar í fráveitumálum.

Orkuveita Reykjavíkur tilkynnti eigendum sumarhúsanna í nóvember í fyrra að lóðarleigusamningar á Elliðavatnsblettum yrðu ekki endurnýjaðir. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar húsamála sem taldi að þetta mál félli ekki undir nýleg lög um frístundabyggð. Búið er að leggja fram viðbótargögn í málinu og hefur verið óskað eftir að nefndin taki málið fyrir að nýju.

Engir af eigendum sumarhúsa í Heiðmörk eru farnir að undirbúa að fjarlægja húsin. En hvað gerist um áramót ef húsin standa þá enn á lóðunum? Verða þau fjarlægð á kostnað eigendanna?

Slíkar valdheimildir eru í höndum borgaryfirvalda, þ.e. Heilbrigðiseftirlitsins, að fylgja eftir skipulaginu og standa með okkur vörð um drykkjarvatnsauðlindina í Heiðmörkinni,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar.

Sveinn Guðmundsson, lögmaður sumarhúsaeigenda í Heiðmörk, segir að farið verði í dómsmál ef kærunefndin neiti að taka á málinu. Húsin verði ekki fjarlægð meðan málið sé fyrir dómstólum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert