SUS átelur þingmenn fyrir frumvarp

Alþingi.
Alþingi. Morgunblaðið/Ómar

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem stjórnin átelur nokkra þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru flutningsmenn að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar.

„Þessir þingmenn eru Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Árni Johnsen og Tryggvi Þór Herbertsson. Frumvarpið felur í sér að niðurgreiðsla sé aukin og að lagður sé á sérstakur skattur til að fjármagna hana.

Ýmis útgjöld heimilisins eru mishá eftir því hvar og hvernig fólk býr á landinu. Þannig er húsnæðiskostnaður, sem er næst stærsti útgjaldaliður heimilanna á eftir sköttum, mun hærri í stórum þéttbýlisstöðum heldur en á minni stöðum eða í dreifbýli. Samt hefur þingmönnum sem sækja fylgi sitt á slíka staði ekki dottið í hug að leggja fram frumvarp um að húsnæðisverð eigi að niðurgreiða á dýrari svæðum.

Þegar fólk ákveður að búa á tilteknum svæðum verður það að sætta sig við alla þá kosti og galla sem því fylgir. Ósanngjarnt er að einn sé skattlagður til að niðurgreiða kostnað annars með þessum hætti. Á sama tíma eru ungir sjálfstæðismenn að sjálfsögðu á móti sértækum sköttum sem leggjast sérstaklega hart á sum byggðarlög, eins og auðlindaskattur gerir,“ segir í tilkynningu sem SUS hefur sent á fjölmiðla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert