Óvíst með endanlega niðurstöðu nefndarinnar

Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður.
Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður. mbl.is/Frikki

Von er á fulltrúum Feneyjanefndar Evrópuráðsins til Íslands um miðjan janúar og er gert ráð fyrir að bráðabirgðaniðurstaða nefndarinnar vegna frumvarpsins að nýrri stjórnarskrá liggi fyrir um tveimur vikum síðar.

Þetta upplýsti Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í umræðum í þinginu í morgun en hún er nýkomin til landsins eftir að hafa gengið á fund Feneyjanefndarinnar og kynnt fyrir henni frumvarpið. Sagði hún meðlimi nefndarinnar hafa verið mjög áhugasama um frumvarpið og aðdraganda þess.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði í umræðunni áherslu á mikilvægi þess að bíða eftir endanlegum niðurstöðum Feneyjanefndarinnar á frumvarpinu og sagðist ekki trúa því að einungis yrði látið nægja að byggja á bráðabirgðaniðurstöðum frá nefndinni.

Valgerður sagði í samtali við Morgunblaðið 11. desember síðastliðinn áður en hún hélt á fund Feneyjanefndarinnar að von væri á fulltrúum nefndarinnar til landsins í byrjun janúar og að hún vonaðist til þess að umsögn hennar lægi fyrir í lok þess mánaðar. Þá sagði Valgerður í umræðum á Alþingi 30. nóvember síðastliðinn að ljóst væri að ef umsagnir um frumvarpið skiluðu sér ekki fyrr en í lok janúar þýddi það að ekki yrði hægt að klára málið fyrir þingkosningar í vor.

Samkvæmt orðum Valgerðar á Alþingi í morgun mun hins vegar sem fyrr segir einungis bráðabirgðaniðurstaða nefndarinnar vera til reiðu í lok janúar en óvíst er hvenær endanleg umsögn kann að liggja fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert