Búin að greiða upp lánið

Þórshöfn í Færeyjum.
Þórshöfn í Færeyjum.

Ísland greiddi í vikunni upp lán sem Færeyingar veittu Íslendingum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Færeyska landstjórnin ákvað í október 2008 að veita Íslandi 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán, jafnvirði um 6,1 milljarðs króna á þeim tíma en 6,7 milljarða króna miðað við gengi krónunnar í dag.

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, fundar í dag með Jørgen Niclasen, fjármálaráðherra Færeyja. 

Segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu að Færeyingar hafi skorið sig úr með því að setja engin skilyrði við lánveitinguna og verður vinsemd þeirra í garð Íslands lengi í minnum höfð.

„Þetta er ótrúlega höfðinglegt af þeim,“ sagði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, þegar Færeyingar tilkynntu ákvörðun sína.

Íslensk stjórnvöld vilja sýna Færeyingum þakklæti þjóðarinnar í verki. Á fundi ráðherranna ræða þeir m.a. eflt samstarf og aukin tengsl Færeyja og Íslands. Hefur ríkisstjórnin samþykkt að standa á næsta ári straum af kostnaði við ráðstefnu um atvinnu- og nýsköpunarmál landanna tveggja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert