Framleitt til manneldis

Þörungaverksmiðjan á Reykhólum.
Þörungaverksmiðjan á Reykhólum. Ljósmynd/Árni Geirsson

Lagfæringar á Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum miða að því að hluti framleiðslunnar standist kröfur sem gerðar eru til vöru til manneldis og til að uppfylla nýjar og strangari kröfur fóðuriðnaðarins í Evrópu. Þangmöl frá fyrirtækinu er notað í vefjariðnaði í Þýskalandi og úr efninu framleiddur ýmiss konar fatnaður.

Matís er að taka starfsemi Þörungaverksmiðjunnar út og bera saman við þær kröfur sem gerðar eru til matvælaframleiðenda. „Ef maður ber saman frystihús og verksmiðjuna hér sést að meginmunurinn er á aðstöðunni, til dæmis hvernig starfsfólkið er klætt en fyrst og fremst skipulegra aðgengi og verk- og vinnuferlar. Fara þarf eftir ákveðnum stöðlum til að hægt sé að framleiða matvæli á viðurkenndan hátt,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Þörungaverksmiðjunnar.

Þörungaverksmiðjan framleiðir lífrænt vottað þang- og þaramjöl úr Breiðafirði og flytur meginhluta þess á erlendan markað. Fyrirtækið hefur vottun á því að akurinn, þörungaauðlindin, sé nýtt á sjálfbæran hátt. Það skapar Þörungaverksmiðjunni einnig ákveðna sérstöðu á markaði að jarðvarmi er notaður til að þurrka þörungana og því ekki sama hætta á mengun frá orkugjafa þurrkunarinnar eins og keppinautar hennar búa við.

Mjölið er notað í fóðuriðnaði og sem áburður en einnig við matvælaframleiðslu og í snyrtivöru- og lyfjaiðnaði. Lífvirku efnin úr mjölinu eru einangruð og notuð í snyrtivörur og lyf. Einnig er mikil eftirspurn eftir kryddi og fæðubótarefni og notkunarmöguleikar afurðanna eru enn miklir og að hluta til ókannaðir.

Tækifæri geta skapast

„Við viljum vera með aðstöðuna eins og hún á að vera, hafa allt í lagi til þess að unnt sé að nota vöruna til manneldis. Við fáum meira fyrir hana þannig en þurfum líka að leggja meira á okkur,“ segir Einar Sveinn og vekur um leið athygli á því að með verkefninu geti skapast tækifæri til að vinna meira úr afurðunum hér heima og gera þannig meiri verðmæti úr hráefninu.

Um tíma hefur verið unnið að endurbótum á verksmiðjunni til að undirbúa framleiðslu samkvæmt kröfum sem gerðar eru til matvælaframleiðslu. Til að hafa yfirsýn yfir framleiðsluferlið sjálft, svo sem hita og raka, var allur rafbúnaður verksmiðjunnar endurnýjaður og stjórnkerfi. Í gær var verksmiðjugólfið endurnýjað að hluta og í framhaldinu verður lóð verksmiðjunnar löguð til og malbikuð. Þá er verið að kaupa nýjan búnað til að skilja grjót frá þangi og þara og tæta hráefnið betur niður fyrir þurrkun. Þannig er hægt að nota lægri hita og þurrka í skemmri tíma og tryggja þannig að verðmæt efni, svo sem andoxunarefni, brotni síður niður við framleiðsluna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert