Vel búnir varaafli en þurfa meira

Snjó kyngdi niður á Ísafirði og voru aðstæður mjög erfiðar.
Snjó kyngdi niður á Ísafirði og voru aðstæður mjög erfiðar. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, segir að það myndi auka orkuöryggi á Vestfjörðum nái Landsnet að hraða uppbyggingu varaaflsstöðva í Bolungarvík, líkt og fyrirtækið hafi á prjónunum. „Það myndi hjálpa okkur geypilega mikið áleiðis og styrkja stöðuna töluvert,“ segir hann.

Víða varð rafmangslaust í óveðrinu sem gekk yfir Vestfirði í lok desember. Árneshreppur var lengst án rafmagns, eða í tæpa fjóra sólarhringa. Rafmagnsleysi á þéttbýlisstöðum stóð mun skemur.

„Við náðum tökum á ástandinu á laugardeginum; eftir að okkur tókst að gera við þessar dísilvélar sem biluðu eftir að keyrsla á þeim hófst,“ segir Kristján samtali við mbl.is.

Hann segir að alls hafi fjórar varaaflsvélar bilað; tvær á Ísafirði, ein í Súðavík og ein í Bolungarvík. „Ekki allar í einu, en þó báðar á Ísafirði á sama tíma sem olli okkur svolitlum vandræðum. En almennt þá erum við það vel búin varaafli, þó það berist engin orka til okkar þá getum við að mestu leyti séð um okkur,“ segir Kristján.

„Vandræði okkar voru þau að við höfðum ekki orku frá Mjólkárvirkjun heldur. Þannig að þetta var allt einangrað. En við náðum tökum á þessu á laugardeginum og eftir það voru það sveitirnar. Það sem helst olli okkur vandræðum var að við vorum bara fastir; mínir menn voru bara fastir. Þeir máttu ekkert fara og gátu ekkert farið út vegna veðurs og snjóflóðahættu,“ segir Kristján sem bætir við að menn hafi verið í nánu sambandi við almannavarnir.

„Maður vill náttúrlega ekki hætta lífi og limum, hvorki sínu né starfsmanna sinna,“ bætir Kristján við.

Aðspurður segir hann lengsta rafmagnsleysið hafi verið í Árneshreppi, eða í tæpa fjóra sólarhringar. Á stærri þéttbýlisstöðum, t.a.m. á Ísafirði, hafi menn verið án rafmagns í 12-13 tíma, þar sem mest var. Það rafmagnsleysi megi hins vegar rekja til bilunar í spennustöð í viðkomandi hverfi.

Allt sem getur farið úrskeiðis fer úrskeiðis

Spurður út í það tjón sem varð vegna rafmagnsleysisins segist Kristján ekki geta sagt neitt til um það á þessari stundu. „Nema ég veit að línutjónið sem við verðum fyrir er takmarkað. Þetta voru ekki stórfelld brot á staurum og slám eins og á varð á Snæfellsnesinu. Heldur voru þetta takmarkaðar litlar bilanir sem menn voru fljótir að gera við þegar þeir komust á staðinn,“ segir Kristján.

„Aðaltjónið liggur sjálfsagt í því að við þurfum að framleiða rafmagn með dísilvélum,“ segir Kristján. Kílóvattstundin kosti um 50 krónur á meðan innkaupsverð á markaði sé um þrjár krónur og söluverð til viðskiptavina um 4,7 kr.

Kristján segist aðspurður hafa orðið var við það í gegnum fjölmiðla að íbúar hafi verið ósáttir við ónóga upplýsingagjöf frá Orkubúi Vestfjarða í rafmagnsleysinu. „Ástæðan er fyrst og fremst sú, að á þessum laugardegi þegar menn voru að reyna að ná tökum á ástandinu þá er nánast engar upplýsingar að hafa. Menn reyna að vinna úr því sem þeir hafa í höndunum. Það er ekki hægt að segja Jóni eða Gunnu að það verði rafmagnslaust í tvo tíma eða þrjá tíma, og þú fáir rafmagn klukkan fimm eða sex. Við vitum ekkert á meðan verið er að ná utan um ástandið,“ segir Kristján.

Hann vísar til lögmáls Murphys sem segir að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, þá muni  það fara úrskeiðis.

Vélar komnar til ára sinna og í lélegu ástandi

Kristján á sæti í nefnd sem skilaði áfangaskýrslu í október til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra sem fjallað er um orkuöryggi á Vestfjörðum. Önnur skýrsla um sama málefni leit dagsins ljós í ársbyrjun 2011, en hún ber heitið Orkuöryggi á Vestfjörðum – áhrif á samkeppnisstöðu og atvinnuþróun. 

Í síðarnefndu skýrslunni kemur m.a. fram að:

„Könnun nefndarinnar og þær upplýsingar sem liggja fyrir um rekstrartruflanir sýna að ástandið eins og það var í lok árs 2009 er er óviðunandi og veldur truflunum á rekstri, tjóni á tækjabúnaði, og hefur neikvæð áhrif á fyriráætlanir um uppbyggingu fyrirtækja og nýfjárfestingar. Rekstraraðilar hafa sumir meiri áhyggjur af flökti á spennu en rafmagnsleysi.“

Ennfremur segir að:

„Á þjónustusvæði Orkubús Vestfjarða er fyrir hendi u.þ.b. 20 MW afl í dísilrafstöðvum. Einungis lítill hluti þeirra er með sjálfvirkri eða fjarvirkri ræsingu þannig að hægt sé að gangsetja þær með stuttum fyrirvara og stærstur hluti búnaðarins er kominn mjög til ára sinna og er í lélegu ástandi.“

Aðeins ein lína til Vestfjarða

Spurður í út dísilvélarnar segir Kristján: „Þær hafa ekki yngst frá því skýrslan var gefin út. Landsnet, sem er ábyrgt fyrir afhendingu rafmagns hjá okkur, er komið með það á teikniborðið - og ég vona að það verði að veruleika á þessu ári - að setja upp 10 megavatta aflstöð í Bolungarvík.“ Hann bætir við að slíkar aflstöðvar hefðu hjálpað mikið í óveðrinu ef þær hefðu verið komnar í gagnið. Spurður nánar út í framkvæmdina vísar Kristján á forsvarsmenn Landsnets.

„Vestfirðir eru - og þetta hljómar kannski skringilega eftir þessi læti - mjög vel búnir varaafli. Það er að segja við getum bjargað okkur þó að það komi engin utanaðkomandi orka inn á svæðið,“ ítrekar Kristján og bætir við að enginn annar landshluti geti gert það.

„Ástæðan fyrir því að við erum með þetta mikið varaafl og höfum byggt það upp er að við höfum orðið að vera viðbúnir að mæta því að eina línan sem liggur til okkar geti dottið út í vondum veðrum,“ segir Kristján. Um er að ræða svokallaða geislatengingu, þ.e. einungis ein lína, sem tengir Vestfirði byggðalínuhringinn.

Hann segir að mikill kostnaður fylgi því að tryggja orkuöryggi á Vestjörðum með sama hætti og sé gert í öðrum landshlutum, enda Vestfirðir erfiðir yfirferðar og þar geti veður orðið mjög slæm.

Vestfirðingar hafa orðið að koma sér upp varaaflsstöðvum til að geta „búið við - ég ætla ekki að segja viðunandi ástand - en svona hér um bil þokkalegt ástand. Þetta hefur tryggt það að við erum aldrei með langtímarafmagnsleysi í þéttbýlisstöðunum; ekki marga sólarhringa. En við fáum þetta óþæginda blikk,“ segir hann að lokum.

Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða.
Kristján Haraldsson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka