Stofni þá nýjan umhverfisflokk

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landsverndar.
Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landsverndar. mbl.is

„Ef það er ekki til stjórnmálaflokkur í landinu sem er andsnúinn olíuleit hlýtur að vera pláss fyrir einn flokk í viðbót,“ segir Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, og gagnrýnir olíustefnu Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG.

Eins og komið hefur fram voru samningar um olíuleit á Drekasvæðinu undirritaðir í dag að olíumálaráðherra Noregs viðstöddum. Hefur Steingrímur fagnað því skrefi en hvatt til þess að varlega sé farið í framhaldinu.

„Það er kominn meiri alvörublær á þetta en áður. Það sem ég tel mikilvægast er að í gegnum samstarfið við Noreg fáum við aðgang að þeirra miklu reynslu og þekkingu á þessu sviði, ekki síst á sviði umhverfis- og öryggismála. Við verðum að stíga varlega til jarðar í þeim efnum og stendur ekkert annað til,“ sagði Steingrímur í samtali við Morgunblaðið í dag.

Fjölmiðlarnir hafi brugðist

Guðmundur Hörður telur fjölmiðla ekki hafa staðið sig sem skyldi í að fjalla um báðar hliðar fyrirhugaðrar olíuleitar á Drekasvæðinu.

„Umræðan hefði mátt vera meiri. Hér er á ferðinni stórmál. Umfjöllunin hefur verið afar einhliða, sérstaklega af hálfu Kristjáns Más Unnarssonar, fréttastjóra Stöðvar 2, sem hefur staðið í stórfelldum áróðri fyrir þessari olíuvinnslu. Nær engin umræða hefur farið fram á vettvangi stjórnmálanna. Eftir því sem ég best veit hefur aðeins einn stjórnmálamaður lagt í að andmæla þessari leit,“ segir Guðmundur Hörður og á við Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra.

En Kristján Már spurði Kolbrúnu hvort hún styddi olíuvinnslu á Drekasvæðinu í sjónvarpsviðtali nokkrum dögum fyrir alþingiskosningarnar 2009. Var viðtalið umdeilt meðal stuðningsmanna VG.

Guðmundur Hörður bendir á að olíuvinnsla á Drekasvæðinu geti haft margvísleg umhverfisleg áhrif. Olía geti lekið í hafið, svo ekki sé minnst á loftslagsáhrifin af vinnslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert