Neita sök í Aurum-málinu

Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding og tveir aðrir fyrrverandi starfsmenn Glitnis neituðu allir sök þegar Aurum-málið svonefnda var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Verjendur lögðu fram sameiginlega bókun þar sem mótmælt var framlagningu 6.000 blaðsíðna skjala og var málinu frestað til næstu viku. 

Ákæra var gefin út á hendur þeim Lárusi Welding, Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Bjarna Jóhannessyni um miðjan síðasta mánuð fyrir umboðssvik sem eru sögð hafa átt sér stað þegar Glitnir veitti félaginu FS38 sex milljarða króna lán til kaupa á félaginu Aurum Holding.

Ekki tími til að fara yfir skjölin

Þegar málið var þingfest í morgun lagði Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding, fram sameiginlega bókun fyrir hönd verjenda allra fjögurra þar sem því var mótmælt að skjöl sérstaks saksóknara væru lögð fram í málinu að svo stöddu.

Benti Óttar á að um væri að ræða viðamikil gögn, um 6.000 blaðsíður, og óvarlegt væri að mótmæla ekki framlagningu þeirra á meðan ekki hefði gefist tími til að fara yfir einstök skjöl. Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, vísaði einnig til dóms hæstaréttar frá því í júlí 2012 en samkvæmt honum lægi fyrir að eftir að skjal hefði einu sinni verið lagt fram væri ekki hægt að afturkalla það. Taldi hann því eðlilegt að málinu yrði frestað um nokkra daga svo verjendum gæfist tóm til að skoða skjölin til hlítar.

Lárus vill málin gegn sér sameinuð í eitt

Lárus Welding lagði að auki fram sérstaka bókun í héraðsdómi í morgun þar sem hann fór fram á að málinu væri frestað á meðan enn eru til rannsóknar fjölmörg önnur mál þar sem hann hefur réttarstöðu sakbornings og varða störf hans hjá Glitni um 16 mánaða skeið. Að sögn verjanda Lárusar lítur hann svo á að réttur hans sé að fjallað sé um málið allt í einu lagi.

Dómari í málinu, Gunnar St. Marteinsson, tók undir þau sjónarmið verjenda að um mikið magn af skjölum væri að ræða. Það væri gömul saga og ný að ákæruvaldið væri mjög fúst til að leggja fram skjöl, en það að leggja „öll þessi ósköp“ fram hlyti þó að þýða að sérstakur saksóknari teldi um grundvallarskjöl væri að ræða. Afstaða dómsins væri því sú að skjölin hefðu þýðingu. Engu að síður féllst hann á að fresta málinu til miðvikudagsins 16. janúar.

 Töldu hlutinn í Aurum ekki 6 milljarða virði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert