Tilkynntu „bangsaspor“ til lögreglu

Bandarískir ferðamenn komu á lögreglustöðina í Borgarnesi í gær til að tilkynna um ísbjarnarspor sem þeir sögðust hafa séð í snjó við Sönghellinn, sem er vestan við Arnarstapa á Snæfellsnesi. Þeir tóku myndir af sporunum sem þeir afhentu lögreglu. Hún telur aftur á móti að sporin séu eftir menn og séu auk þess gömul.

Ólafur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn á Snæfellsnesi, segir í samtali við mbl.is að lögreglumaður hafi verið sendur á staðinn í dag til að skoða sporin. „Honum sýndist þetta vera spor við hellinn eftir fólk,“ segir Ólafur og bætir við að sporin séu ekki ný. Þá hafi lögreglumanninum sýnst móta fyrir mynstri í sporunum eftir skósóla.

Hann svarar því neitandi þegar hann er spurður hvort fleiri tilkynningar um ísbjarnarspor hafi borist lögreglunni.

Ferðamennirnir sögðu við lögregluna í Borgarnesi að þeir hefðu ekki þorað að fara inn í hellinn af ótta við að þar inni leyndist ísbjörn. Þeir sögðust ennfremur hvorki hafa séð bangsa né heyrt í honum. Þeir sáu aðeins umrædd spor, tóku myndir af þeim og forðuðu sér síðan.

Málið ásamt ljósmyndunum var síðan sent til framhaldsrannsóknar til lögreglunnar á Snæfellsnesi þar sem um hennar umdæmi er að ræða.

Allur er varinn góður

„Það eru engin önnur spor þarna í kring eða út frá hellinum, þannig að ég tel engar líkur á að það sé bangsi þarna,“ segir Ólafur en bætir við að menn eigi aldrei að segja aldrei.

Hann tekur fram að lögreglumaðurinn hafi ákveðið að kanna aðstæður Ólafsvíkurmegin. „Hann ætlar að reyna að sjá hvað hann kemst langt upp hinumegin og sjá hvort hann sér eitthvað,“ segir Ólafur og bætir við að allur sé varinn góður. Það sé betra að ganga úr skugga um að ekki sé að finna önnur spor sem gæti svipað til spora eftir ísbjörn.

Aðspurður segir Ólafur að sig reki ekki minni til þess að ísbjörn hafi sést á Snæfellsnesi. „Ég er búinn að vera hérna í 10 ár og það hefur aldrei komið svona tilkynning; ekki sem ég man eftir,“ segir Ólafur yfirlögregluþjónn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert