Segjast ekki hafa heimild til að víkja lögreglumanni úr starfi

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Ríkislögreglustjóri og lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins telja sig ekki hafa heimild til að víkja lögreglumanni úr starfi, þrátt fyrir að hann hafi verið kærður fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Ríkissaksóknari neitar að veita ríkislögreglustjóra upplýsingar um rannsókn málsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Meira en ár er frá því að lögreglumaður í Reykjavík var kærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum 11 ára og yngri. Maðurinn hefur aldrei verið leystur frá störfum. Kærurnar eru vegna stjúpdóttur mannsins og tveggja vinkvenna hennar.

Í svari Ríkislögreglustjóra til fréttastofu RÚV um hvers vegna maðurinn sinnir löggæslustörfum þrátt fyrir rannsókn og kærur fyrir kynferðisbrot, kemur fram að ríkislögreglustjóri fór þess á leit við ríkissaksóknara að fá afhent rannsóknargögn svo unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi manninn frá störfum um stundarsakir. Ríkissaksóknari hafnaði erindi ríkislögreglustjóra og sagði sig ekki hafa heimild til þess samkvæmt lögum.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, segir að hann sé í sömu stöðu og embætti ríkislögreglustjóra. Hann skorti lagalega heimild og upplýsingar til að taka einhliða ákvörðun um að víkja manninum úr starfi, segir í frétt RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert