Fá fjarvist fyrir að mæta á fund

Stjórnendur Landspítalans hafa tekið ákvörðun um að lífeindafræðingar á Landspítala Íslands sem mæta til fundar til þess að ræða kjaramál verði skráðir með óleyfilega fjarvist. Þetta kemur því til með að hafa áhrif á launagreiðslur til þeirra.

Undanfarna mánuði hafa lífeindafræðingar á Landspítala fundað einn til þrjá morgna í viku vegna óánægju með kjaramál og til að skapa þrýsting um gerð nýs stofnanasamnings við spítalann. Viðræður samstarfsnefndar lífeindafræðinga á LSH hafa engu skilað og því hefur þessum fundum verið haldið áfram. Auk þess sem lífeindafræðingar hafa fylgt sínum fulltrúum á fundi samstarfsnefndar til að veita þeim stuðning.

Í síðustu viku tilkynnti Ásbjörn Jónsson, framkvæmdarstjóri Rannsóknarsviðs LSH, lífeindafræðingum að ef ekki yrði gert hlé á þessum fundarhöldum yrði yfirmönnum hverrar deildar gert að ská fjarveru starfsmanna vegna fundanna sem óheimila fjarvist og sá tími dreginn af launum.

Lífeindafræðingar mótmæltu strax þessari afstöðu spítalans og sögðu jafnframt að þeir myndu halda áfram að funda um kjaramál sín.

Ásbjörn hefur nú sent stjórnendum á rannsóknarsviði formlegt bréf þar sem segir að sá tími sem starfsmenn eru fjarverandi vegna óheimila fundahalda verði hér eftir skráður sem óheimil fjarvist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert