Kaupmaðurinn á horninu komi aftur

Jón Gnarr borgarstjóri er þessa dagana að halda íbúafundi með …
Jón Gnarr borgarstjóri er þessa dagana að halda íbúafundi með borgarbúum. mbl.is/Golli

Í tillögum að nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík er mörkuð sú stefna að færa þjónustuna sem mest inn í hverfin. Jón Gnarr borgarstjóri sagði á íbúafundi í Árbæjarhverfi í dag að hann vildi fá kaupmanninn á horninu til að opna verslanir í hverfunum og vonandi kæmi skósmiðurinn líka.

„Þið vitið manna best hvað er gott fyrir hverfið ykkar,“ sagði Jón á fundinum þegar hann kynnti verkefnið Betri Hverfi, en í mars verður kosið rafrænt um tillögur sem íbúar leggja fram um smærri verkefni, nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni.

Í fyrra bárust hátt í 400 hugmyndir frá borgarbúum um verkefni í hverfunum. Reykjavíkurborg hyggst enn á ný verja 300 milljónum til svokallaðra hverfapotta og geta íbúar hverfanna komið með hugmyndir að verkefnum og síðan kosið um þær í rafrænum íbúakosningum sem haldnar verða dagana 14. – 19. mars nk. með sama hætti og í fyrra.

Ný göngubrú yfir Breiðholtsbraut

„Varðandi framkvæmdir í hverfinu á næstunni er það að segja að það verður gerð ný göngubrú yfir Breiðholtsbraut í samstarfi við Vegagerðina, en hún tengir saman Norðlingaholt og Selásinn,“ sagði Jón.

„Á þessu ári er einnig stefnt að því að reisa nýjan geymslubyggingu fyrir Árbæjarsafn.

Fyrr á þessu ári var haldinn fundur um aðalskipulag í þessu hverfi. Í nýja aðalskipulaginu er gert ráð fyrir að öll þjónusta færist inn í hverfin og sé í hverfunum sjálfum. Við erum að tala um að fá kaupmanninn á horninu og félaga hans inn í hverfin. Ég vona að skósmiðurinn komi líka.“

Jón sagði að breytingar á aðalskipulagi væru ekki miklar. Þó yrði byggingum á atvinnusvæðum í jaðri svæðisins fjölgað, einkum í Hálsahverfi. „Í tillögum að aðalskipulagi er gert ráð fyrir þéttingu byggða við Rafstöðvarveg, í jaðri Ártúnsholts og Brekknaáss. Einnig er gert ráð fyrir íbúum í efri hæðum í þjónustukjörnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert