Deilt um Mánastein fyrir dómi

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað konu af kröfu manns en þau deildu um eignarhald á hestinum Mánasteini. Maðurinn krafðist þess að viðurkenndur yrði eignaréttur hans að hestinum, en því var hafnað.

Maðurinn og konan voru í sambúð á þeim tíma sem Mánasteinn kom í heiminn, þ.e. sumarið 2008. Maðurinn byggði á því í málinu að hann hefði verið eigandi hryssunnar sem kastaði umræddu folaldi en konan hélt því fram að hún hefði tekið ákvörðun um kaupin á hryssunni og séð um greiðslu kaupverðs.

Þá sagði konan að hestinum hefði verið gefið nafnið Mánasteinn í höfuðið á barnabarni sínu og hafi hann átt að vera sameign þeirra tveggja.

Í niðurstöðu dómsins segir að manninum hafi verið orðið kunnugt um að hesturinn hefði verið skráður eign konunnar um það leyti sem hann var örmerktur en hann kvaðst ekki hafa talið sig hafa ástæðu til að eltast við hina ætluðu röngu merkingu fyrr en snemma árs 2011.

„Verður tómlæti stefnanda að þessu leyti ekki skýrt með öðrum hætti en þeim að hann hafi á þessum tíma sætt sig við skráninguna en hafa verður í huga að málsaðilar voru þá í sambúð.“ Þá segir að nafngift hestsins styðji þá staðhæfingu konunnar að hesturinn hafi átt að vera sameign hennar og barnabarns hennar.

Manninum þótti ekki hafa tekist að sanna eignarhald sitt á hestinum og var kröfu hans því hafnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert