Hið opinbera hækkar verðlag um 5-6%

Gjöld fyrir sorphirðu hækkuðu um 50% á árunum 2008-2012, holræsagjöld …
Gjöld fyrir sorphirðu hækkuðu um 50% á árunum 2008-2012, holræsagjöld um ríflega 60%, vatnsgjöld um tæplega þriðjung og rafmagn og hiti um 66% á sama tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ríki og sveitarfélög hafa á síðustu árum aukið álögur á heimilin með ítrekuðum hækkunum á gjaldskrám og neyslusköttum. Þessar hækkanir skila sér beint út í verðlag og valda aukinni verðbólgu.

Frá árinu 2008 hefur opinber þjónusta hækkað um ríflega 35% auk þess sem auknar álögur á eldsneyti, áfengi og tóbak hafa valdið um þriðjungs hækkun á þessum vörum á tímabilinu. Áætla má að hækkanir á opinberum álögum hafi á síðustu árum hækkað verðlag hér á landi um 5-6%, að því er fram kemur í nýrri samantekt frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ).

Áhrifum af álögum opinberra aðila á verðlag má skipta annars vegar í beinar hækkanir á gjaldskrám og hins vegar í ýmsa neysluskatta sem leggst á verð vöru og þjónustu. Hér er farið yfir helstu hækkanir opinberra álaga sem höfðu áhrif til hækkunar á verðlagi á liðnum árum.

Leikskólagjöld hækkuðu um 35% og frístundavist um 36%

Sveitarfélögin eru stórir veitendur opinberrar þjónustu og breytingar á álögum þeirra hafa því umtalsverð áhrif á verðlag. Þar má nefna að gjaldskrár leik- og grunnskóla hafa hækkað mikið á undanförnum árum en skv. vísitölu neysluverðs hækkuðu leikskólagjöld um 35% á árunum 2008-2012 og síðdegisvist í grunnskólum um 36%. Þessar hækkanir höfðu áhrif til hækkunar á verðlagi um 0,3-0,4 % á tímabilinu.

Sorphirðan hækkaði um 50% og holræsagjöldin um 60%

Þá hafa álögur sveitarfélaganna á fasteignaeigendur hækkað mikið undanfarin ár. Gjöld fyrir sorphirðu hækkuðu um 50% á árunum 2008-2012, holræsagjöld um ríflega 60%, vatnsgjöld um tæplega þriðjung og rafmagn og hiti um 66% á sama tímabili. Samanlagt hafa þessi gjöld áhrif til hækkunar á verðlagi um ríflega 2% á tímabilinu.

Í janúar 2010 hækkaði efra þrep virðisaukaskatts úr 24,5% í 25,5%. Ætla má að sú hækkun hafi skilað sér í um 0,2% hækkun á verðlagi í upphafi árs 2010.

Heilbrigðisþjónustan hefur hækkað um ríflega þriðjung

Ríkið leggur auk virðisaukaskatts sérstakar álögur á eldsneyti, áfengi og tóbak sem hækkuðu fimm sinnum á árunum 2008-2012. Í heildina hækkaði verð á áfengi og tóbaki um ríflega 67% á tímabilinu en rekja má um 30% hækkun til hækkana á áfengis- og tóbaksgjaldi.

Verð á bensíni og olíu hækkaði um tæplega 87% á árunum 2008-2012 en rekja má um 32% hækkun til hækkana á bensín- og olíugjaldi.

Samanlagt hafa auknar álögur ríkisins á áfengi, tóbak, bensín og olíu hækkað verðlag um 2% á tímabilinu. 

Þá hækkuðu gjaldskrár heilbrigðisþjónustunnar um ríflega þriðjung á árunum 2008-2012 en sú hækkun hefur áhrif til hækkunar á verðlagi um 0,5% á tímabilinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert