Óveður á Holtavörðuheiði

Holtavörðuheiðin er ófær en víða um land er slæm færð.
Holtavörðuheiðin er ófær en víða um land er slæm færð. mbl.is/Rax

Óveður er á Holtavörðuheiði og víðar á landinu. Mjög hvasst er undir Eyjafjöllum en reikna má með vindhviðum 30-40 m/s undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli þar til í nótt.

Það er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum en á Suðurlandi eru víða hálkublettir eða hálka. Þæfingsfærð er á Mosfellsheiði og Kjósarskarði, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vetrarfærð er einnig á Vesturlandi, víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja. Óveður er á Holtavörðuheiði ásamt hálku. Þungfært er á Fróðárheiði.

Versnandi veður er á Vestfjörðum og víða orðið mjög hvasst. Óveður er á fjallvegum á sunnanverðum kjálkanum og ekki ferðaveður. Miklidalur er ófær en þæfingsfærð er á flestum öðrum fjallvegum.

Á Norðurlandi er hálka á flestum vegum, víða skafrenningur og slæmt skyggni. Þæfingsfærð er á Víkurskarði og skafrenningur. Hólasandur er ófær. Þungfært er á Mývatnsöræfum og ekkert ferðaveður.

Hálka eða hálkublettir eru á Austurlandi og víða skafrenningur. Þæfingsfærð er á Vatnsskarði eystra og óveður. Stórhríð er á Fjarðarheiði og heiðin er ófær. Hálka og skafrenningur er á Oddsskarði.

Vegur með suðausturströndinni, frá Djúpavogi og suður um, er auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert